Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:40:24 (1740)

2000-11-14 17:40:24# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað þarf ekkert að deila um hið hörmulega ástand sem er í Írak. (ÖJ: Nú?) Það hef ég aldrei gert. (ÖJ: Þú hefur gert það.) Það hef ég aldrei gert. Ég hef hins vegar deilt við hv. þm. um það hvar sé rótin að því.

Hv. þm. fer alltaf fram hjá því að það eru Sameinuðu þjóðirnar sem standa að viðskiptabanninu og Ísland stendur að þessu viðskiptabanni sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Það er eins og hv. þm. geri sér aldrei grein fyrir því. Við berum skyldur samkvæmt stofnsamningi Sameinuðu þjóðanna að standa með Sameinuðu þjóðunum í þessu máli.

Hins vegar er alveg ljóst að Sameinuðu þjóðirnar hafa ávallt haft margvíslega mannúðaraðstoð að leiðarljósi í aðgerðum sínum gegn íröskum stjórnvöldum. Lyf, matvæli og námsgögn hafa ekki sætt neinum takmörkunum inn til Íraks. (Gripið fram í: Jú.) Nei. Hins vegar hefur stjórnandinn þar sem öllu ræður gengið svo langt að flytja þessi hjálpargögn út aftur til þess að ná sér í peninga sjálfum sér til framdráttar. Við verðum að líta eitthvað til þess hver ber þarna höfuðábyrgð.

Endalaus tilraun hv. þm. til þess að koma ábyrgðinni af Saddam Husein yfir á alþjóðasamfélagið er náttúrlega dæmd til að mistakast.