Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:44:41 (1742)

2000-11-14 17:44:41# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa átt sér stað um þá ræðu sem ég lagði hér fram. Vel má vera að hún sé ekki með þeim hætti sem menn hefðu kosið að sjá hana en hún hefur a.m.k. skapað hér umræðu, umræðu um mörg mál og orðið til þess að hér hafa átt sér stað skoðanaskipti um margvísleg alþjóðleg mál.

[17:45]

Ég tel vera merkilegast við þessa umræðu að hún hefur farið mjög inn á mannréttindamál, inn á friðargæslu, inn á mannúðar- og neyðarhjálp, og það hefur komið fram að almenn ánægja er með það að Íslendingar ætla sér að taka virkari þátt í friðargæslu. Auðvitað má alltaf um það deila hvort við tökum meiri þátt í friðargæslu annars vegar eða mannúðar- og neyðarhjálp hins vegar, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom hér inn á. En þessi mál tvinnast saman með margvíslegum hætti og það er afskaplega erfitt að greina á milli annars vegar neyðarhjálpar og mannúðaraðstoðar á Balkanaskaga, svo dæmi sé tekið, og hins vegar friðargæslu. Friður er forsenda þess að lýðræði geti blómstrað á nýjan leik á Balkanskaga og friður er forsenda þess að hægt sé að koma að mannúðaraðstoð og friður er líka forsenda þess að hægt sé að hjálpa fólki sem þar er í neyð. Í reynd er friður forsenda þess alls staðar í heiminum að fólk geti búið við bærileg kjör og eigi framtíð fyrir sér. Ófriður verður alltaf til þess að þeir sem minnst mega sín þjást mest og það eru oftast börn, konur og gamalmenni.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom einmitt inn á samstarfssamning okkar við Úganda sem er að þróast. Við höfum undirritað þar samstarfssamning og hann liggur að sjálfsögðu fyrir í utanrrn. og langeðlilegast að við afhendum hv. þm. þennan samning þannig að þingmaðurinn geti kynnt sér hann. Hann er alllangur. Ég hef hann ekki hér með mér en hann er að sjálfsögðu opinbert skjal sem ávallt er hægt að biðja um.

Að því er varðar viðskiptamál og hjálp við þróunarlöndin þá get ég tekið undir það með hv. þm. að það er mikilvægt að þessi viðskipti gangi í báðar áttir, að það sé aflétt þeim takmörkunum sem eru á viðskipti þróunarlandanna við Vesturlönd. En það sem við eigum nú ekki síst við er að fyrirtæki okkar og fyrirtæki á Vesturlöndum komi að starfi í þróunarlöndunum. Ég vil nefna dæmi. Þar eru menn ekki með það í huga að einhverjir alþjóðlegir viðskiptahringir eða fjölþjóðahringir nái völdum heldur að stuðla að því að sú þekking sem verið er að reyna að flytja til þessara landa verði þar viðvarandi og fólk geti notið hennar áfram.

Við höfum t.d. um langt skeið verið með þróunarhjálp í Namibíu og það liggur fyrir að á næstu árum munum við draga okkur í hlé þar vegna þess að Namibía hefur sem betur fer náð því marki að teljast ekki lengur þróunarríki vegna þess að þeir hafa náð það miklum framförum. Þess vegna munum við draga okkur smátt og smátt þaðan út. Það er hins vegar afskaplega mikilvægt að sú þekking sem við höfum verið að reyna að flytja til þessa fólks verði eftir í landinu og þar starfi fyrirtæki, t.d. á vettvangi sjávarútvegs, sem byggja á þessari þekkingu. Og sem betur hefur það gerst í allmiklum mæli að íslenskir aðilar hafi komið þar inn í viðskiptalíf og það hefur orðið sjávarútvegi þeirra til góðs og þeir hafa uppgötvað að það eru ekki aðeins auðæfi í demöntum sem þeir vinna á landi og eru farnir að leita líka að undan ströndum með hörmulegum afleiðingum fyrir landið því gífurleg auðn skapast af greftri eftir demöntum. Það liggur líka mikil auðlegð í auðæfum hafsins undan strönd Namibíu og það er mikilvægt að íslensk þekking sem hefur verið flutt til landsins verði eftir í landinu og menn geti notað hana áfram hvort sem það er á sviði sjómannafræðslu, tölvumála, fiskveiðistjórnar eða fiskveiðirannsókna og þannig mætti lengi telja. Þetta skiptir afskaplega miklu máli. Og vegna þess að hér kom líka til umfjöllunar hjálp við fátækustu ríki heims þá er mjög mikilvægt að sú breyting sem þar átti sér stað, ekki síst fyrir frumkvæði Norðurlandanna, var að nú koma áætlanir um framkvæmd mála, hvernig skuli staðið að málum, frá löndunum sjálfum. Þær koma ekki upphaflega frá Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er sem sagt verið að forðast það að neyða upp á þessi ríki aðferðum sem ekki ganga í þeirra umhverfi. Það er nú hugsunin á bak við þetta.

Það liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir, af því að hér er talað um einkavæðingu, að það er ekki mikið að einkavæða þegar talað er um stoðkerfi þessara fátæku ríkja. Ég vil segja því miður. Án þess að ég sé að mæla sérstaklega með einkavæðingu í stoðkerfum þessara ríkja þá er stoðkerfið oft og tíðum bara ekki til staðar. Þá vantar skólakerfi. Þá vantar heilsugæslu og við Íslendingar höfum svo vel séð þetta þegar við komum inn í þessi lönd og ætlum að fara að hjálpa á sviði fiskveiða, á sviði sjávarútvegs, að þarna er engin heilsugæsla til staðar og engir skólar. Það er eins með þessi þorp og okkar þorp og byggðir í landinu að það er ekki hægt að reka neitt samfélag nema þar sé bæði heilsugæsla og skólakerfi og þess vegna höfum við í ríkum mæli farið í slíka uppbyggingu.

Þess vegna finnst mér það nokkuð sérkennilegt þegar þessi mál eru rædd og áherslur Norðurlandanna í þessu samhengi að við séum þar með að styðja einhvers konar samsæri fjölþjóðahringa. Kröfur Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins snúast fyrst og fremst um að skuldaniðurfellingin og nýtast þeim best sem búa við mestu örbirgðina og það er náttúrlega ekki hægt að nefna þar neina eina töfraformúlu. Þess vegna er sú leið farin að biðja viðkomandi ríki um að leggja það niður sjálf hvernig þau telja að best sé að standa að þessum málum.

Hér hefur jafnframt verið rætt allmikið um Evrópumál og EES-samninginn. Það hefur verið kvartað undan því að sú umræða hafi ekki verið nægilega mikil. Ég vænti þess að úr því verði hægt að bæta síðar. Ég vænti þess að við munum eiga góðan fund í utanrmn. á morgun um þau mál. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir spurði sérstaklega hvernig væri hægt að nýta EES-samninginn betur til þess að styrkja okkar stöðu. Það verður að segjast alveg eins og er að það er starf sem við eigum að sinna á hverjum degi og reyna að styrkja okkar stöðu. Vandamálið er hins vegar að í Evrópusamstarfinu hafa komið til nýjar nefndir, nýr samstarfsvettvangur þar sem málefni eru flutt úr einni nefnd yfir í aðra, úr nefndum sem hafa verið á vettvangi framkvæmdastjórnarinnar yfir í nefndir á vettvangi ráðherraráðsins. Við höfum aðgang að þessum nefndum framkvæmdastjórnarinnar, ekki að nefndum ráðherraráðsins og við erum ávallt að fara þess á leit að fá aðgang að því starfi við misjafnan árangur. Það er líka eitt af vandamálunum sem við búum við að Evrópuþingið hefur fengið vaxandi áhrif og fjallar um gerðir í vaxandi mæli og það sem kemur frá Evrópuþinginu ratar að mestu leyti inn í þessar gerðir sem við verðum síðan að yfirtaka og við getum ekki haft nægileg áhrif þar á. Þess vegna höfum við verið að leita leiða til að nálgast Evrópuþingið meira og ég held að það sé einmitt verkefni sem hv. Alþingi þarf að sinna eftir því sem kostur er, þ.e. hvernig sé hægt að tryggja samskipti Alþingis við þingmenn á Evrópuþinginu. Það eru dálítil samskipti þar á milli en þau eru alls ekki nægileg að mínu mati. Hins vegar er ekkert auðvelt að eiga við þessi mál.

Herra forseti. Fram hafa komið ýmsar spurningar í þessari umræðu. Ég sé að fáir hv. þingmanna sem báru þær fram eru hér enn þá og ég tel að ég hafi reynt að svara því að langmestu leyti sem hér hefur komið fram eftir því sem ég hef aðstæður til. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið lífleg og það hefur margt komið fram í henni. Ég vænti þess að við fáum tækifæri til þess að ræða utanríkismál nánar síðar á þessu þingi og við í utanrrn. munum leitast við að gera Alþingi grein fyrir þeim störfum sem fara fram á alþjóðlegum vettvangi. Þetta starf er mjög vaxandi og við getum ekki tekið þátt í öllu því samstarfi sem þar fer fram af augljósum ástæðum. Þar verðum við að velja og hafna. Við verðum að beita okkar litlu utanríkisþjónustu þar sem við teljum mesta von til að við getum gert gagn, að við getum orðið til aðstoðar eða þar sem við teljum að við verðum að beita henni til að gæta hagsmuna Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Þetta er oft og tíðum erfitt val og þess vegna er ánægjulegt að það skuli vera almennur stuðningur, eins og ég hef fundið í þessari umræðu og oft áður, við að efla íslensku utanríkisþjónustuna smátt og smátt, ekki í einu skrefi heldur skref fyrir skref. Það hefur verið að gerast á undanförnum árum, m.a. með því að opna ný sendiráð og taka þátt í ýmsu öðru sem við höfum ekki tekið þátt í áður. Það er mikilvægt fyrir utanrrn. og utanríkisþjónustuna að finna að við það er stuðningur þótt oft og tíðum hljóti að verða einhver ágreiningur um einstök málefni í íslensku samfélagi sem tekist er á um á alþjóðavettvangi. Hjá því verður ekki komist. Það er mjög mikilvægt að hér sé vettvangur á Alþingi til að ræða áherslur og mismunandi sjónarmið í þeim málum og ég tel að í þessari umræðu hafi það komið ágætlega fram.