Búsetuúrræði fyrir fatlaða

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 13:31:52 (1748)

2000-11-15 13:31:52# 126. lþ. 25.1 fundur 40. mál: #A búsetuúrræði fyrir fatlaða# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Í mars 1998 skipaði félmrh. nefnd til að fjalla um biðlista eftir búsetu og annarri þjónustu hjá svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra og gera áætlun til nokkurra ára um uppbyggingu og þjónustu. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að láta höfuðborgarsvæðið hafa forgang og gerði sjö ára áætlun um hvernig ætti að eyða biðlistum á þessu svæði en 378 manns voru á biðlista eftir búsetu. Nú erum við á þriðja ári áætlunarinnar og því fróðlegt að heyra hjá hæstv. félmrh. hvernig gengið hefur að halda áætlun biðlistanefndarinnar hingað til hér á höfuðborgarsvæðinu. En í skýrslu nefndarinnar var lagt til að byggð yrðu tíu sambýli á þessum tveimur árum, fimm á hvoru svæði, þ.e. fimm í Reykjavík og fimm á Reykjanesi. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvernig hafi gengið að fylgja áætluninni eftir.