Víkingaskipið Íslendingur

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 13:52:49 (1759)

2000-11-15 13:52:49# 126. lþ. 25.3 fundur 149. mál: #A víkingaskipið Íslendingur# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Mönnum eru í fersku minni þeir atburðir sem urðu í tilefni af því að þúsund ár eru liðin frá landafundum Íslendinga í Ameríku. Landafundadagskráin er örugglega mesta kynning á Íslandi og íslenskri menningu sem gerð hefur verið. Enginn einn atburður af þeim 250 sem skipulagðir voru í þeirri glæsilegu dagskrá hefur þó vakið aðra eins athygli og sigling víkingaskipsins Íslendings vestur um haf. Undirbúningur að siglingunni og siglingin sjálf var afrek og um leið mikilvæg sönnun um þá getu og þekkingu sem forfeðurnir höfðu sem gerði þeim mögulegt að sigla heimsálfanna á milli.

En smíði skipsins er ekki síður afrek. Þekkingaröflun Gunnars Marels og þeirra sem komu að undirbúningi hennar og framkvæmd hefur verið sannkallað Grettistak og áræði hans og dugnaður til að ráðast í það stórvirki að smíða skipið er aðdáunarvert. Skipið og sögu þess þarf og verður að varðveita og það þarf að fylgja landafundakynningunni eftir. Margir spyrja: Hvernig verður það gert? Ég vil með leyfi hæstv. forseta vitna til orða hæstv. utanrrh. á Alþingi í gær, en hann sagði í skýrslu sinni um utanríkismál:

,,Nú er brýnt að setjast niður og meta á hvern hátt best verður fylgt eftir þeim góða árangri sem náðst hefur í Norður-Ameríku og nýta þann meðbyr sem Ísland nýtur um þessar mundir. Umboð landafundanefndar rennur út í janúar næstkomandi og huga þarf að því hvort einhvers konar framhald þjóni hagsmunum okkar. Utanríkisþjónustan mun fyrir sitt leyti fylgja þessum árangri eftir.``

Þetta sagði hæstv. utanrrh.

Ég vil aftur á móti komast að því hvort hæstv. menntmrh. telji það ekki vera í sínum verkahring að fylgja þeim hluta málsins eftir sem snýr að víkingaskipinu Íslendingi og ber þess vegna fram tvær spurningar til hæstv. ráðherra. Hin fyrri er:

Hyggst hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að Íslendingur, skip Gunnars Marels Eggertssonar, sem gert hefur fræga ferð vestur um haf í kjölfar Leifs Eiríkssonar, verði varðveitt á Íslandi?

Og hin spurningin:

Telur ráðherra að til greina komi að stofna sérstakt safn um siglingar Íslendinga á víkingatímanum eða að fela einhverjum tilteknum aðila, safni eða stofnun, varðveislu skipsins og ef svo er, hvaða aðilar koma þá helst til greina?