Útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:12:28 (1769)

2000-11-15 14:12:28# 126. lþ. 25.4 fundur 183. mál: #A útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Það liggur fyrir að ný aðalnámskrá grunnskóla getur leitt til verulegra útgjalda fyrir sveitarfélögin. Þau hafa þó nokkurt svigrúm til að ákveða útfærslur og ráða því nokkru um hversu hár kostnaðurinn verður. En þau eru líka í afskaplega mismunandi stöðu til að takast á við þau verkefni sem námskránni fylgja. Minni skólar í dreifbýli og nemendur þeirra standa vissulega frammi fyrir ákveðnum vanda vegna ákvæða um aukið val á unglingastigi og þá líka með tilliti til þeirrar staðreyndar að samræmd próf í 10. bekk verða valkvæð.

Herra forseti. Þannig er afskaplega erfitt fyrir fámenna skóla að búa svo um hnúta að nemendur þeirra í 9. og 10. bekk geti notfært sér þá möguleika sem í námskránni kunna að liggja. Það er hægt en það kostar fé. Við getum velt því fyrir okkur hvernig lítill skóli fer að því að bæta við þriðja tungumáli, þýsku eða spænsku, ef hann ekki getur leitað til stærri framhaldsskóla sem getur lagt til kennara. Það er vissulega hægt að kaupa fjarkennslu í viðkomandi grein. Hægt, segi ég. Það eru möguleikar á slíku, a.m.k. tæknilegir. En víða á landinu hafa menn af því áhyggjur hvernig þeir leysa þessa hluti til frambúðar þannig að þeir séu nógu vel gerðir svo ekki sé verið að mismuna nemendum. Eins og ég sagði, herra forseti: Þetta er hægt en það kostar peninga.

Ég hef þess vegna lagt þá spurningu fyrir hæstv. menntmrh., hversu mikill kostnaður er því samfara fyrir sveitarfélögin að bjóða upp á aukið val í 9. bekk grunnskóla, þar með talið í tungumálum. En af því að ég hef líka heyrt áhyggjur af því hversu dýrt er að útbúa náttúrufræðistofur --- ágætur kennari sem ég hef fulla trú á sagði mér að það kostaði hálfa millj. fyrir hvern skóla a.m.k. --- þá veit ég ekki hvað menntmrn. hefur látið athuga í því efni. En ég spyr einnig um kostnað við slíkan útbúnað.

Herra forseti. Að lokum, vegna þess að mikil umræða hefur verið um tekjustofna sveitarfélaga, bæði um verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, spyr ég hvaða tekjustofnum sveitarfélögunum hafa verið tryggðir á móti þessum útgjöldum. Ég veit að fyrir liggur skýrsla þar sem þessi útgjöld eru tekin saman. En það sem ég er að spyrja um hérna er að gefnu tilefni vegna þess að ég hef heyrt af þessu tvennu hafðar sérstakar áhyggjur og sveitarfélögin hafa eðlilega, herra forseti, vegna reynslu sinnar af, ég vil kalla, átökum við ríkið um frekari tekjustofna, áhyggjur af því hvernig þessum kostnaði muni verða mætt.