Útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:20:29 (1771)

2000-11-15 14:20:29# 126. lþ. 25.4 fundur 183. mál: #A útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:20]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég kem upp til þess að fagna því að boðið skuli vera upp á fjölbreyttara nám í 9. og 10. bekk, þar á meðal aukið val í tungumálakennslu. Ég sé fyrir mér hvað það er mikilvægt fyrir nýbúa, t.d. börn sem flytja frá öðrum löndum, að þeir geti lagt meiri áherslu á sitt móðurmál, t.d. Chile-búar á spænskunám. Ég held því að þetta sé afar gott.

Það hefur verið þannig að grunnskólinn hefur séð um að útbúa allar kennslustofur í æðimörg ár og vissulega er það kostnaðarsamt. En það er í rauninni forgangsatriði sveitarfélaganna hvernig þau vilja útbúa sína skóla og ég vil bara nefna að það er t.d. miklu dýrara að útbúa heimilisfræðistofu en náttúrufræðistofu. En þetta er hlutverk sveitarfélaganna og það er þeirra að sjá um þetta og það hafa þau gert í æðimörg ár.