Útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:21:44 (1772)

2000-11-15 14:21:44# 126. lþ. 25.4 fundur 183. mál: #A útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það var lærdómsríkt að hlusta á hæstv. menntmrh. svara þessari fyrirspurn hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Hún spurði hver kostnaðurinn væri við að aðlaga skólastarf að nýrri aðalnámskrá. Ég gat ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að hann teldi að því væri enginn aukakostnaður fylgjandi. Það væri með öðrum orðum hægt að koma þessari aðlögun fyrir innan þess ramma sem samið var um árið 1996.

Það vita auðvitað allir sem eitthvað þekkja til skólastarfs hjá sveitarfélögunum að þetta er alrangt, herra forseti. Ég leyfi mér að vísa í skýrslu eftir Ólaf Darra Andrason frá því í júní í ár þar sem hann leggur mat á þennan kostnað fyrir sveitarfélögin. Þar kemur fram að kostnaður þeirra við að aðlaga skólastarf að nýrri aðalnámskrá verður 290 millj. kr. Og þar kemur líka fram að árlegur rekstrarkostnaður sveitarfélaga eykst um 490 milj. kr.

Herra forseti. Þetta smellur inn í þá umræðu sem við vorum hér með í fyrri hluta þessarar og í síðustu viku, þ.e. um verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hér er um það að ræða (Forseti hringir.) að ríkið setur reglur sem stórauka kostnað sveitarfélaganna en því fylgja engar tekjur.