Útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:22:59 (1773)

2000-11-15 14:22:59# 126. lþ. 25.4 fundur 183. mál: #A útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:22]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda þessar efnismiklu spurningar en að sama skapi lýsa vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra, því aukið val útheimtir fleiri kennara. Aukið val í grunnskólunum útheimtir meira rými. Aukið val útheimtir líka þörf fyrir nýtt og betra námsefni og eins og ástandið er núna hjá Námsgagnastofnun má segja að hún geti varla haldið í horfinu hvað þá aukið við eða eflt námsefni og bætt við nýju.

Það er staðreynd að stjórnvöld eru í þessu tilliti að berja höfðinu við steininn og það kemur afar vel í ljós í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurnunum sem hér liggja fyrir. Og þó að unnið sé að endurmati á stöðu grunnskólanna og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þessum efnum þá verður að efla þessa umræðu og taka á henni og höggva að rótum vandans því hér bera sveitarfélögin skarðan hlut frá borði, þau sveitarfélög sem fæsta íbúa hafa.