Útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:25:32 (1775)

2000-11-15 14:25:32# 126. lþ. 25.4 fundur 183. mál: #A útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Það var á hæstv. menntmrh. að skilja að framkvæmd nýrrar aðalnámskrár í grunnskólum krefðist ekki frekari kostnaðar og jafnframt mátti ráða af orðum hans að það gæti jafnvel orðið hagræði af því að auka valið í elstu bekkjum grunnskóla. En það stendur í aðalnámskránni, í almenna hlutanum, herra forseti, svo ég vitni beint:

,,Það er afar mikilvægt að nemendum sé ljóst strax í 9. bekk hvað tekur við að loknum grunnskóla til þess að þeir geti nýtt sér valkosti sem þeim bjóðast í 9. og 10. bekk. Aðalnámskráin gerir ráð fyrir að í þeim bekkjum fái nemendur að ákveða sjálfir í samráði við foreldra og kennara og með tilliti til framtíðaráforma á hvað þeir leggja áherslu í námi sínu. Nemandi, sem t.d. hyggst fara á málabraut, á að geta lagt aukna áherslu á erlend mál með því að leggja stund á þriðja erlenda málið í grunnskóla. Hann á líka að eiga þess kost að velja t.d. náttúrufræði eða listgreinar til að breikka menntun sína ...``

Nemandinn á, stendur hér í almenna hluta aðalnámskrár fyrir grunnskóla. Þá veltir maður því fyrir sér hversu miklir möguleikar eru fyrir sveitarfélög að hafa þessa hluti eins og passar þeim peningalega, þ.e. að gera þetta ódýrt. Réttur nemandans er ótvíræður samkvæmt aðalnámskránni. Hins vegar, herra forseti, gerir ráðuneytið býsna miklar kröfur til sveitarfélaganna og meiri kröfur en það e.t.v. gerði til ríkisins. Þannig hefur menntmrn. verið að fella úrskurði um skólahald, sem þó hefur ekki breyst frá því að ríkið fór með þessi mál, úrskurði sem hafa kostað sveitarfélögin samkvæmt mati um 130 millj. kr. Þetta hefur heldur ekki verið bætt, herra forseti.

Þannig má reikna með því að ef nemandi kvartar undan því að hann fái ekki að nýta sér þá möguleika sem eru í námskránni, þá verði því fylgt eftir af hálfu ráðuneytisins, eðlilega, að sveitarfélagið svari þessum kröfum. En, herra forseti, það er ekki nóg að gera kröfur. Það þurfa líka að fylgja peningar og um það snýst þetta mál ekki síst.