Umgengni um nytjastofna sjávar

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:42:39 (1783)

2000-11-15 14:42:39# 126. lþ. 25.6 fundur 83. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (viðurlög) fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég hef eiginlega orðið fyrir miklu áfalli að heyra þessa niðurstöðu. Þau lög sem hafa verið í gildi síðan 1996 virka nákvæmlega ekki neitt. Úrræði hæstv. ráðherra um að bæta við einu ákvæði í þessi lög munu örugglega verða dæmd til að verða ónýt og mistakast. Hæstv. ráðherra upplýsir að 17 útgerðir hafi verið ákærðar eða framferði þeirra hafi verið kært til lögreglu. Þrjár af þeim voru ákærðar í raun og veru, ekki fleiri. Í ljós kemur að Fiskistofa hefur einu sinni beitt úrræðinu hvað varðar 3. spurninguna um það að taka upp veiðarfæri og einu sinni innheimt gjald vegna þess. Lögin eru gersamlega óhæf og ónýt en hæstv. ráðherra heldur því samt fram að þau hafi náð markmiðum sínum og að augljóst sé að markmið 1. gr. laganna um umgengni við nytjastofnana hafi náðst. Ég tel þvert á móti auðséð af því sem hér kemur fram að refsikafli þessara laga hefur enga þýðingu. Menn verða að finna aðrar leiðir til að sjá til þess að menn gangi vel um þessa auðlind en nota ákvæði af því tagi sem hér er um að ræða. Ekki hefur reynst unnt að framfylgja þeim. Ekki er líklegt að nýja ákvæðið um það að menn eigi að borga áttunda daginn um borð í skipunum hjá sér mundi verða haldbetra en þau sem hér hafa verið reynd frá því árið 1996.