Ákvæði skipulagsreglugerðar um nálægð byggðar við vötn, ár eða sjó

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:02:14 (1791)

2000-11-15 15:02:14# 126. lþ. 25.8 fundur 186. mál: #A ákvæði skipulagsreglugerðar um nálægð byggðar við vötn, ár eða sjó# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Eins og kunnugt er af fréttum hefur Kópavogsbær unnið að skipulagningu íbúðahverfis við Elliðavatn og hafa orðið um það mál nokkrar deilur sem eru í sjálfu sér ekki tilefni þessarar fyrirspurnar, enda fær á öðrum vettvangi ...

(Forseti (ÁSJ): Ég bið hv. þingmenn að hafa hljóð í salnum.)

Ég get byrjað aftur, herra forseti. Ég er að leiða inn umræður um það mál sem spurt er um, þ.e. fyrirhugaða íbúðabyggð á vegum Kópavogskaupstaðar við Elliðavatn í landi Vatnsenda en um það mál hafa risið nokkrar deilur. Það hefur komið fram og liggur fyrir í gögnum málsins að samkvæmt skipulagsuppdráttum er ætlunin að skipuleggja þar allmikla íbúðabyggð alveg fram á vatnsbakkann.

Nú er þetta svæði um margt sérstakt og er að hluta til náttúruverndarsvæði, vatnsverndarsvæði. Fyrir utan það sérstaka og fallega umhverfi sem þarna er eru í húfi margvíslegir umhverfislegir hagsmunir sem tengjast möguleikum þessa svæðis og aðliggjandi svæða sem útivistarsvæða. Þarna er lífríki Elliðavatns og Elliðaáa í húfi og fleira mætti nefna af þeim sökum.

Hins vegar vekur athygli að á grundvelli reglugerðar um skipulagsmál virðist ekkert vera því til fyrirstöðu þegar um er að ræða skipulagningu íbúðabyggðar í þéttbýli að byggt sé alveg fram á vatnsbakka sem er öðruvísi en við á þegar um er að ræða íbúðabyggð utan svonefndra þéttbýlissvæða en þéttbýli er í sömu reglugerð skipulagt sem þyrping húsa þar sem búi a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fari að jafnaði ekki yfir 200 m. Nokkuð augljóst er að það gildir um þetta svæði. Væri um að ræða vatn eða vatnsverndarsvæði utan þéttbýlis mundi hins vegar gilda grenndarregla þar sem að lágmarki 50 m skyldu vera frá vatnsborði og að næstu íbúðabyggð.

Þetta vekur upp spurningar, herra forseti, um það hvort eðlilegt sé að við aðstæður eins og ríkja við Elliðavatn gildi þessi ákvæði skipulagsreglugerðar óbreytt eða hvort þörf sé á að endurskoða ákvæði þeirra og setja þarna önnur grenndarmörk, t.d. þegar í hlut eiga sérstaklega viðkvæm svæði, þó innan þéttbýlis sé, þegar í hlut eiga vatnsverndarsvæði eða önnur slík. Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. umhvrh. eftirfarandi spurninga í þessu sambandi:

1. Telur ráðherra þörf á að endurskoða ákvæði skipulagsreglugerðar, einkum grein 4.15.2, um nálægð byggðar við vötn, ár eða sjó, í ljósi byggingaráforma í Vatnsendalandi við Elliðavatn?

2. Telur ráðherra að setja þurfi sérstök ákvæði um nálægð byggðar við vatnasvæði sem eru hluti vatnsverndarsvæðis eða hafa mikið verndargildi af öðrum ástæðum?

3. Hver er afstaða ráðherra til aukinnar íbúðabyggðar á bökkum Elliðavatns?