Ákvæði skipulagsreglugerðar um nálægð byggðar við vötn, ár eða sjó

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:05:59 (1792)

2000-11-15 15:05:59# 126. lþ. 25.8 fundur 186. mál: #A ákvæði skipulagsreglugerðar um nálægð byggðar við vötn, ár eða sjó# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrstu spurninguna: Telur ráðherra þörf á að endurskoða ákvæði skipulagsreglugerðar, einkum grein 4.15.2, um nálægð byggðar við vötn, ár eða sjó, í ljósi byggingaráforma í Vatnsendalandi við Elliðavatn, þá er því til að svara að í grein 4.15.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er ákvæði um að í deiliskipulagi svæða utan þéttbýlis skuli þess gætt að ekki verði byggt nær vötnum, ám eða sjó en 50 m og ekki verði hindruð leið fótgangandi meðfram þeim. Hér er um lágmarksákvæði að ræða í reglugerð sem ég tel ekki ástæðu til að breyta. Hins vegar kunna að koma upp kröfur svo sem vegna náttúruverndar eða vegna mengunar í einstökum tilvikum að endurskoða það. Á slíku er þá tekið í aðalskipulagi og deiliskipulagi í samræmi við kröfur í öðrum lögum, svo sem náttúruverndarlögum, nr. 441/1999, og í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

Í öðru lagi er spurt: Telur ráðherra að setja þurfi sérstök ákvæði um nálægð byggða við vatnasvæði sem eru hluti vatnsverndarsvæðis eða hafa mikið verndargildi af öðrum ástæðum? Vatnsverndarsvæði eru vernduð til að koma í veg fyrir grunnvatnsmengun og mengun í ám og vötnum í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 319/1995, um neysluvatn, og reglugerðar nr. 776/199 um mengun vatns. Sem dæmi skal nefnt að í febrúar 1999 staðfesti þáv. umhvrh. vatnsverndarskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið. Þar eru skilgreind grunnsvæði, grannsvæði, fjarsvæði A og fjarsvæði B og hvaða takmarkanir á mannvirkjagerð gilda á hverju svæði. Þannig er með skipulagsákvörðun og með vísun í gildandi reglugerð hægt að tryggja vernd vatns. Við gerð skipulags í sveitarstjórnum á Skipulagsstofnun að gæta þess að ákvæði áðurnefndra reglugerða séu virt og sé ég því ekki ástæðu til breytinga.

Í þriðja lagi: Hver er afstaða ráðherra til aukinnar íbúðabyggðar á bökkum Elliðavatns? Því er til að svara að ákvörðun um nýja íbúðabyggð við Elliðavatn hefur verið tekin í aðalskipulagi Kópavogs á grundvelli gildandi laga og reglugerða. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, er það hlutverk sveitarstjórna að annast gerð aðalskipulags og deiliskipulags. Frumkvæði er í höndum sveitarfélaganna og Skipulagsstofnun gætir þess að rétt sé að málum staðið lögum samkvæmt. Umhvrh. staðfestir aðalskipulag en í því er ekki fólginn ákvörðunarréttur um skipulagið. Deiliskipulagið krefst ekki staðfestingar umhvrh.

Ég vek sérstaka athygli á því að samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er tryggður réttur íbúa á hlutaðeigandi svæði til að koma að athugasemdum í sjálfu skipulagsferlinu. Ég sé ekki ástæðu til að blanda mér í deilur um skipulagsmál í Kópavogi. Á þeim verða kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn og íbúar að taka. Reyndar er staðan þannig núna að menn hafa nýverið tekið þessi mál fyrir í Kópavogi og að hluta til minnkað þau áform sem þar voru uppi.