Ákvæði skipulagsreglugerðar um nálægð byggðar við vötn, ár eða sjó

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:11:33 (1795)

2000-11-15 15:11:33# 126. lþ. 25.8 fundur 186. mál: #A ákvæði skipulagsreglugerðar um nálægð byggðar við vötn, ár eða sjó# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Um leið og ég þakka svör ráðherra lýsi ég vonbrigðum með þau. Mér fannst koma fram í raun og veru að hæstv. umhvrh. væri bæði skoðanalaus og aðgerðalaus með öllu í þessum málum og ég tel að hæstv. umhvrh. geti ekki skotið sér á bak við það að þetta sé viðfangsefni sveitarfélaga. Þegar í hlut eiga svæði sem lúta í fyrsta lagi að mörgum sveitarfélögum og í öðru lagi hafa yfir að búa mjög sérstakri náttúru og sérstöku lífríki kemur það umhvrn. við hvernig með þá hluti er farið. Mér finnst að hæstv. ráðherra hefði átt að reyna að beita sér með einhverjum hætti í þessari deilu og samskiptum sveitarfélaga í því sambandi.

Það virðist vera svo, herra forseti, að staðan sé að sumu leyti veikari hvað varðar umhverfisverndarsjónarmið þegar í hlut á svæði sem fellur innan þeirrar skilgreiningar að vera í þéttbýli. Það er spurning: Vilja menn hafa það svo jafnvel þó í hlut gætu átt sérstakar náttúruperlur, vatnsverndarsvæði eða annað því um líkt?

Mér sýnist einnig vera ákveðið gat í þessu ferli ef staðan er sú sem við vitum að eingöngu aðalskipulag er til staðfestingar hjá umhvrh. Sú staðfesting felur ekki í sér ákvörðunarvald um innihald skipulagsins og síðan er það fyrst þegar deiliskipulag birtist mönnum sem mönnum verður alvara málsins ljós eins og gerðist í þessu tilviki, að það á allt í einu að fara að drífa upp mikla íbúðabyggð og jafnvel blokkabyggingar niður á bökkum Elliðavatns. Ég skora á hæstv. umhvrh. að láta ekki nægja þessi snubbóttu svör hér heldur fara rækilega yfir málin. Ég spái því að þá komist menn að þeirri niðurstöðu að þarna þurfi að taka ákveðna hluti til endurskoðunar. Þetta er ekki í nógu góðu fari eins og það er í dag.