Gildistaka Schengen-samkomulagsins

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:28:02 (1803)

2000-11-15 15:28:02# 126. lþ. 25.10 fundur 129. mál: #A gildistaka Schengen-samkomulagsins# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mun halda mig við þær spurningar sem hv. fyrirspyrjandi hefur komið með í fsp. sinni.

Í fyrsta lagi vil ég geta þess að undirbúningur þess að Schengen-samningurinn komist til framkvæmda hér á landi næsta vor hefur staðið yfir lengi og er afar margþættur. Ég vil þó í byrjun ítreka það sem margoft hefur komið fram, að samvinna okkar í tengslum við Schengen breytir í engu möguleikum íslenskra stjórnvalda á tollaeftirliti á landamærum og því að gera ítarlega leit að fíkniefnum á fólki og í farangri við landamæri. Þannig er engan veginn hætta á því að slakað verði á fíknieftirliti þannig að meira af fíkniefnum komist inn í landið um hafnir og flugvelli eða að ekki verði unnt að grípa til aðgerða þegar grunur leikur á fíkniefnainnflutningi.

Á hinn bóginn er mikilvægt að benda á að alþjóðleg lögreglusamvinna í tengslum við Schengen-samstarfið mun efla verulega möguleika íslenskrar lögreglu í baráttu við fíkniefnainnflutning. Auk þess hafa yfirvöld gripið til margs konar aðgerða á þessu ári, einkum með auknum fjárveitingum bæði til löggæslu og tollgæslu, til að takast á við fíkniefnabrot. Ég mun nú draga saman í stuttu máli nýjustu aðgerðir og þær sem eru fram undan.

Á þessu ári voru fjárveitingar til fíkniefnalöggæslu hækkaðar um 50 millj. kr. samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar, þar af runnu 20 millj. til lögreglunnar í Reykjavík, til ráðningar fimm lögreglumanna sérstaklega til að sinna fíkniefnalöggæslu; 12 millj. til ráðningar sérstakra fíkniefnalögreglumanna í Kópavogi, á Selfossi og í Keflavík; 8 millj. vegna nýrra lögreglumanna í efnahagsbrotadeild og fíkniefnastofu ríkislögreglustjóra; 10 millj. til tækjakaupa vegna fíkniefnarannsókna og 2 millj. til kaupa og þjálfunar fíkniefnahunda.

Með Schengen-upplýsingakerfinu og samstarfinu eru veittar veigamiklar upplýsingar sem gera kleift að rekja slóð brotamanna þar sem grunur leikur á brotastarfsemi sem fer milli ríkja, auk þess sem mælt er fyrir um sérstaka löreglusamvinnu.

[15:30]

Á þessu ári ákvað ríkisstjórnin að ganga til samninga við Evrópulögregluna Europol. Með því getur íslenska lögreglan tekið þátt í náinni alþjóðlegri lögreglusamvinnu, einkum gegn fíkniefnabrotum og peningaþvætti sem teygir anga sína hingað til lands eins og margvísleg alþjóðleg brotastarfsemi. Á þessu ári ákvað ríkisstjórnin einnig að taka þátt í svokölluðu Pompidou-samstarfi en þar er um að ræða samstarf aðildarríkja Evrópuráðsins um sameiginlegar aðgerðir gegn fíkniefnavánni.

Innan Schengen-samstarfsins er starfandi sérstök nefnd sem fjallar um aðgerðir aðildarríkja að samningnum gegn fíkniefnum. Þar er um að ræða vettvang lögregluyfirvalda og tollayfirvalda í því skyni að koma í veg fyrir, upplýsa og rannsaka fíkniefnabrot. Nefndin vinnur m.a. að því að gera tillögur um samræmdar reglur um lögreglusamvinnu og lögregluaðgerðir í fíkniefnamálum. Hún tekur fyrir sameiginleg vandamál sem steðja að aðildarríkjum varðandi fíkniefnamál og gerir tillögur um viðbrögð. Þá hef ég komið af stað margvíslegu samstarfi við bandarísk löggæslustjórnvöld, einkum varðandi þjálfunarmál lögreglumanna á afmörkuðum sviðum. Nú hefur fíkniefnalöggæslustofnun Bandaríkjanna boðist til að veita lögreglumönnum á Keflavíkurflugvelli sérstaka þjálfun í fíkniefnalöggæslu á flugvöllum. Það mál er nú í skoðun í samvinnu við utanrrn. en átak af því tagi hefur skilað miklum árangri á bandarískum flugvöllum.

Ég gæti lengi talað áfram um aðgerðir dómsmrn. og undirstofnana þess gegn fíkniefnum. Enn eru ótaldar sérstakar aðgerðir á Keflavíkurflugvelli og átak hjá tollayfirvöldum, einkum auknar fjárveitingar til tollgæslu sem hæstv. utanrrh. mun væntanlega reifa hér á eftir. Ég leyfi mér að fullyrða að aldrei áður hefur lögreglan náð jafnmiklum árangri í baráttu við fíkniefnin og undanfarin ár. Hvert stórmálið rekur annað og aldrei fyrr hefur jafnmikið magn fíkniefna verið gert upptækt af lögreglu á jafnstuttum tíma. Aldrei hafa jafnmargir verið ákærðir og dæmdir til jafnþungra refsinga. Nú þegar hefur sýnt sig áþreifanlega að þessi brotastarfsemi teygir sig út fyrir landsteinana og samvinna við lögreglu í öðrum Evrópuríkjum er ekki bara gagnleg heldur algjör forsenda í mörgum málum. Þetta er árangur sem við getum verið stolt af en jafnframt veldur það okkur áhyggjum að þessi barátta er geysilega erfið og tilraunir til innflutnings fíkniefna virðast þrátt fyrir allt enn aukast.

Schengen-samstarfið er samstarf ríkja sem taka höndum saman um sameiginleg markmið að þessu leyti. Það er því rangt að það leiði af sér slakara eftirlit eða auki hættu á meiri innflutningi fíkniefna. Ég tel mig hafa sýnt fram á það hér. Ég hef hins vegar áhyggjur af stöðu fíkniefnamála eins og landsmenn allir. Við höfum náð góðum árangri en vandinn er engu að síður ærinn. Ég get upplýst það hér að enn frekari efling aðgerða er til skoðunar í ráðuneytinu og ríkisstjórninni.

Ég mun svara seinni spurningunni í seinni ræðu.