Gildistaka Schengen-samkomulagsins

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:38:29 (1808)

2000-11-15 15:38:29# 126. lþ. 25.10 fundur 129. mál: #A gildistaka Schengen-samkomulagsins# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér er spurt um áhrif Schengen-samkomulagsins á innflutning fíkniefna. Ég vil trúa því að það samstarf geti verið mikilvægt í gagnkvæmri upplýsingamiðlun Schengen-þjóðanna sem veiti okkur vopn til þess að standast árásir fíkniefnabaróna.

Mér fannst það hins vegar ákaflega sérkennilegt innlegg hér við þessa umræðu, um þetta stóra vandamál sem er við að glíma og enginn deilir um, þegar flokkssystur hæstv. dómsmrh. komu hér, börðu sér á brjóst og töluðu um að frekar þyrfti að sameinast en að sundrast í baráttunni gegn þessum vágesti. Um það geta allir verið sammála.

Hitt er algjörlega óumdeilt að það vantar peninga til löggæslu og lögreglan sjálf hefur upplýst um það. Það er alveg sama hvað menn reyna að hamra þetta járn og tala um góðan árangur, það má allt eins fullyrða að árangur fíkniefnalögreglunnar felist í því að magn fíkniefna sé meira en áður var. Við skulum fara okkur varlega í því að hreykja okkur of hátt, þá verður fallið því meira.