Gildistaka Schengen-samkomulagsins

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:43:11 (1811)

2000-11-15 15:43:11# 126. lþ. 25.10 fundur 129. mál: #A gildistaka Schengen-samkomulagsins# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég get sannfært hv. fyrirspyrjanda um að þessi mál eru öll í réttum farvegi. En seinni spurning hans hljóðar þannig:

,,Er enn áætlað að fyrirhuguð tímasetning gildistöku Schengen-samkomulagsins hér á landi standist?``

Þær undirbúningsaðgerðir sem snúa að dómsmrn. hafa staðist tímaáætlanir. Þess má geta að nýlega er lokið afar umfangsmiklu menntunarátaki fyrir alla lögreglumenn og yfirmenn löggæslu í landinu, um 700 manns, auk sérstakrar aukinnar fræðslu og verklegrar þjálfunar fyrir u.þ.b. 150 lögreglu- og tollgæslumenn sem koma að persónueftirliti á landamærum. Uppsetning upplýsingakerfa er á áætlun. Í vor og í haust hafa fjórar sérstakar úttektarnefndir komið á vegum Schengen-ríkjanna til að kanna stöðu mála varðandi undirbúning hér á landi og á öðrum Norðurlöndum. Að þeirra mati hefur undirbúningur hér á landi í meginatriðum gengið eins og að var stefnt. Ég sé því ekkert því til fyrirstöðu að Schengen-samningurinn komi til framkvæmda samkvæmt fyrirliggjandi áætlun, en það er þann 25. mars nk. Ég get einnig upplýst það hér að vinna utanrrn. hefur gengið samkvæmt áætlun þannig að þeir sjá því ekkert til fyrirstöðu að samningurinn geti tekið gildi á þessum tíma.

Aukið alþjóðlegt samstarf er lykilatriði í baráttunni gegn fíkniefnum. Landsmenn hafa orðið þess varir í fregnum af þeim fjölmörgu stóru fíkniefnamálum sem upplýst hafa verið að undanförnu að samstarf við lögreglulið erlendra ríkja hefur ráðið úrslitum við lausn margra mála og Schengen mun efla þetta samstarf.

Það er alveg ljóst að margt hefur verið gert til að efla löggæslu hér á landi en það er jafnljóst að við megum ekki sofna á verðinum, við verðum að halda því góða starfi áfram og efla löggæsluna enn frekar. Það mál er í sérstakri skoðun í dómsmrn.