Fíkniefnanotkun í fangelsum

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 16:00:52 (1819)

2000-11-15 16:00:52# 126. lþ. 25.11 fundur 204. mál: #A fíkniefnanotkun í fangelsum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni fór ég yfir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til til þess að stemma stigu við fíkniefnanotkun í fangelsum. Þær eru margvíslegar. Ég fjallaði jafnframt um aukna möguleika fanga til að fara í meðferð og rjúfa vítahring fíkniefnaneyslu. Ég fjallaði einnig um aðgerðir sem eru í bígerð og tengjast nýju fangelsi.

Hv. þm. Katrín Fjeldsted spurði um samstarf við heilbrrh. á þessu sviði og ég er sammála henni í því að það þarf að efla. Það tel ég mjög mikilvægt. Ég skýrði reyndar nokkuð ítarlega frá því hvaða möguleikar fælust í því að reisa nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spurði um meðferðarstarf í upphafi fangavistar. Það meðferðarstarf er einmitt hafið í upphafi fangavistar. Það er nú byrjað, sérstaklega varðandi unga afbrotamenn, og ég tel það mikið gleðiefni.

Ég heyrði hins vegar ekki eina einustu nothæfa tillögu til úrbóta frá hv. fyrirspyrjanda. Þó var hann mjög gagnrýninn á stöðu mála í þessum efnum og hefði ég vænst þess að hann hefði eitthvað uppbyggilegt til mála að leggja. En svo var því miður ekki. Það er mjög merkilegt að heyra að fyrirspyrjandi skuli halda fram að upplýsingar sínar séu réttari en upplýsingar sem ráðherra hefur frá Fangelsismálastofnun.

E.t.v. kristallast sá vandi sem við er að etja í fíkniefnamálum í þessari umræðu að menn geta séð í hendi sér hversu mikill vandi er að stöðva innflutning efnanna til landsins þegar ekki tekst einu sinni að loka fangelsunum. Þetta er vandi sem blasir við öllum vestrænum þjóðum. Vissulega er hægt að loka fangelsunum algjörlega fyrir fíkniefnum, þ.e. með því að rjúfa allt samband fanga við umheiminn en er það sanngjarnt gagnvart föngum sem neyta ekki fíkniefna? Er það í takt við þá stefnu að vinna að því að brotamenn geti aðlagast samfélaginu þegar afplánun er lokið? Svo er auðvitað ekki enda fara engar þjóðir sem hafa mannréttindi í hávegum slíkar leiðir í fangelsismálum.

Fangelsisyfirvöld hafa náð nokkuð góðum tökum á þessum vanda að undanförnu eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni. En ég legg áherslu á að við verðum að bæta ástandið enn betur og ég get verið sammála hv. fyrirspyrjanda um það.