Launagreiðslur fanga

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 16:10:56 (1822)

2000-11-15 16:10:56# 126. lþ. 25.14 fundur 134. mál: #A launagreiðslur fanga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[16:10]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég undrast að hæstv. dómsmrh. skuli telja að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hafi haft stór orð uppi um framkomu ríkisins í þessu máli. Hvað sagði hv. þm.? Hún spurði hvort ríkið stæði fyrir svartri atvinnustarfsemi og hvort það stundaði skattsvik. Þetta kallaði hæstv. dómsmrh. stór orð.

Síðan upplýsir hæstv. ráðherra í sama svari: Nei, það eru ekki greidd opinber gjöld af launum fanga og jú, ríkisskattstjóri telur að það eigi engu að síður að gera. Með öðrum orðum greiðir ríkið ekki opinber gjöld og þar með stundar það svarta atvinnustarfsemi. Ég fæ ekki betur séð.

En út úr þessu vaknar spurning sem mig langar að varpa til hæstv. dómsmrh.: Getur það virkilega verið að vegna þessa fái fangar sem komi út úr fangelsum ekki atvinnuleysisbætur? Getur það verið að ríkið standi fyrir því að svipta menn grundvallarmannréttindum, þ.e. að eiga möguleika á því að framfæra sjálfan sig og sína? Þetta finnast mér ótrúleg tíðindi og ég krefst þess að hæstv. dómsmrh. upplýsi þetta strax.