Launagreiðslur fanga

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 16:13:58 (1825)

2000-11-15 16:13:58# 126. lþ. 25.14 fundur 134. mál: #A launagreiðslur fanga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[16:13]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Stór orð? Það er þannig að þeir atvinnurekendur sem standa ekki við lögbundnar greiðslur af þeim sem stunda hjá þeim vinnu hafa verið dregnir fyrir dóm. Það er bara þannig. Það er álitið mjög alvarlegt athæfi að standa ekki við greiðslu opinberra gjalda. Sumir hverjir hafa fengið fangelsisdóm, fjársektir eða samfélagsþjónustu.

[16:15]

Nú er ég ekki að segja að hæstv. ráðherra, sem er fulltrúi ríkisstjórnarinnar eða ríkisvaldsins sem rekur þessa stofnun, eigi að draga fyrir dóm. Hins vegar er það þannig að við hljótum að krefjast þess að lögð verði fram lagabreyting vegna þess að þetta hefur ekkert með gæði við fanga að gera. Þeir stunda vinnu, það er lögbundið, þeir stunda nám og fá fyrir það þóknun, en í 1. málslið 7. gr. í lögum um tryggingagjald segir varðandi gjaldstofninn að öll laun og þóknanir séu gjaldskyld. Það er um engar undanþágur að ræða. Hafi komið fram ábending frá ríkisskattstjóra verður auðvitað að taka á þessu. Þetta er alls ekkert nýtt mál. Þetta er ekkert að verða til með núverandi hæstv. ráðherra. Þetta hefur verið svona alla tíð. En það þýðir ekki að þetta óréttlæti eigi að vera áfram vegna þess að mikil nauðsyn er á því að tryggingagjald sé greitt af vinnulaunum fanga til að þeir eigi möguleika á að fóta sig í lífinu eftir að afplánun lýkur. Það er liður í því að þeir hafi tekið út refsingu sína. Þetta er mannréttindamál. Sama gildir um lífeyrissjóðina. Þegar boðið er í atvinnustarfsemi eins og númeraplötugerð er auðvitað ekki nein jafnræðisregla og þetta hlýtur líka að stríða gegn samkeppnislögum, þegar um er að ræða stofnun sem greiðir laun eins og það væri einhvers staðar í Asíu. Það verður að taka á þessu. Þetta er stórt og mikið réttlætismál.