Launagreiðslur fanga

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 16:16:21 (1826)

2000-11-15 16:16:21# 126. lþ. 25.14 fundur 134. mál: #A launagreiðslur fanga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[16:16]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég veit að hv. fyrirspyrjandi er mjög vel að sér í þessum málaflokki og get verið sammála henni um að það þarf að skoða þessi mál betur.

En það er líka alveg rétt að hún sá það eins og sagt var frá í fyrri ræðu að kveðið er á um vinnu og vinnuskyldu fanga í lögum um fangelsi og fangavist og um nám fanga og ég vísa hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni á að kynna sér þá löggjöf.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði að því hvort þetta fyrirkomulag geti orðið til þess að fangar fái ekki atvinnuleysisbætur. Hv. fyrirspyrjandi hafði einmitt upplýst mig um það fyrir þessa fyrirspurn að svo væri. Ég kýs að taka orð hennar trúanleg en ég get auðvitað óskað eftir nákvæmari svari ef hv. formaður Samfylkingarinnar hefur ekki rætt þessi mál við flokkssystur sína.

Álagning opinberra gjalda á greiðslu til fanga er auðvitað snúið mál. Fyrir utan það sem ég nefndi í fyrri ræðu er spurning hvort telja beri fanga launþega ríkisins með öllum þeim skyldum vinnuveitenda sem því fylgir. Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér enda ekki tími til þess en málið er til meðferðar hjá ráðuneytunum eins og ég sagði áður.

Annað mál sem þessu tengist er slysatrygging fanga. Þeir eru ekki slysatryggðir í dag. Hugmyndir hafa verið um að breyta því og slysatryggja þá en það kostar auðvitað einhverja fjármuni. Ráðuneytið hefur málið nú til umfjöllunar og ég tel að hér sé um framfaramál að ræða.