Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 10:49:37 (1830)

2000-11-16 10:49:37# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[10:49]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Við höfum hlustað á hv. 1. þm. Norðurl. e. flytja skýrslu. Mér er spurn, vegna þess að þetta er starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999, sem fjallar um starfsskýrslur 1998, alls 163 skýrslur og þar af 154 opinberar skýrslur. Því vil ég spyrja, herra forseti: Hver svarar fyrir það sem í þeim skýrslum stendur? Hver svarar fyrir þær skýrslur? Það er verið að ræða skýrslur sem komu út á árinu 1998, alls 163, þar af 154 opinberar.

Það er fyllsta ástæða til þess að spyrja að þessu, herra forseti. Svo ég nefni bara eina skýrslu, endurskoðun ríkisreiknings vegna ársins 1998, um hana er fjallað í þessari starfsskýrslu. Því spyr ég, herra forseti, og tel ástæðu til að koma þeirri spurningu að á þennan máta, í andsvari: Hver svarar fyrir rekstur ríkissjóðs og þær breytingar sem urðu við endurskoðunina? Hver svarar fyrir þær stofnanir sem hér er um fjallað, heilbrigðisstofnanir, skóla o.s.frv.?

Það er ástæða til að benda á að hér er enginn hæstv. ráðherra viðstaddur til að svara því sem við höfum heimild, herra forseti, til að fjalla um undir þessari starfsskýrslu. Þá er og kannski rétt að spyrja í lokin, þegar maður horfir á skipulag Ríkisendurskoðunar: Undir hvern heyrir Ríkisendurskoðun miðað við skipurit?