Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 10:54:55 (1833)

2000-11-16 10:54:55# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[10:54]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér er ekki alveg ljóst hvert hv. þm. er að fara. Hér er greint frá því að á árinu 1999 hafi Ríkisendurskoðun farið yfir ríkisreikning frá árinu 1998 og er eðlilegt að það sé gert ári síðar. Þegar rætt er um þessar 163 skýrslur þá er það svo að fæstar þeirra, til allrar hamingju, gefa sérstakt tilefni til ályktunar. Þær eru oft til leiðbeiningar og auðvitað til öryggis fyrir þá sem bera ábyrgð á rekstri einstakra stofnana og einstakra sviða innan stofnana.

Að lokum vil ég segja að þegar málefni Ríkisendurskoðunar eru lögð fyrir Alþingi þá finnst mér ekki síður mikilsvert að óbreyttir þingmenn, þó að þeir eigi ekki sæti í ráðherrastóli, fjalli um þau málefni en ráðherrarnir sjálfir. Ég tel að við þurfum ekki að hafa neina minnimáttarkennd þó þeir séu fjarverandi og séum fullfærir um að fjalla um þau málefni sem hér liggja fyrir.