Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 11:06:10 (1835)

2000-11-16 11:06:10# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), GE
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[11:06]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Í upphafi fór undirritaður í andsvar við flutningsmann skýrslu og fékk þá þau svör að efni viðkomandi skýrslna frá árinu 1998, sem heyrði undir viðkomandi ráðuneyti, yrði væntanlega svarað af viðkomandi ráðuneytum. Nú sé ég, herra forseti, ekki nokkurn hæstv. ráðherra til þess að svara ef ég vildi beina fyrirspurnum vegna þeirra skýrslna sem Ríkisendurskoðun hefur gefið út og ég spyr virðulegan forseta: Eigum við von á því að einhverjir ráðherrar komi til þess að svara fyrir ákveðin efni? Þarf að tilgreina þau efni sem menn vilja spyrja út í eða getum við átt von á því að þeir birtist hér undir ræðu minni eða á hvern veg verður þessu háttað, herra forseti?

(Forseti (ÁSJ): Forseti mun láta athuga það.)

Forseti mun láta athuga það hvernig þessu verður háttað. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um starfsskýrsluna að öðru leyti en að þetta er falleg skýrsla og ágætlega vel fram sett og gerð grein fyrir því sem starfað var á árinu 1998 í höfuðatriðum eins og reikna má með í slíkum skýrslum. En ég vil benda á, herra forseti, að heita má að í hverri skýrslu Ríkisendurskoðunar varðandi ríkisreikning hafi komið fram þetta sem ég vil gjarnan vitna til úr endurskoðun ríkisreiknings fyrir 1998, 1999, 1997 og svo aftur á bak, með leyfi forseta: ,,Enn má finna dæmi um stofnanir sem árum saman hafa komist upp með að virða ekki fjárheimildir.`` Í framhaldi af þessu, með leyfi forseta: ,,Að mati Ríkisendurskoðunar er brýnt að tekið sé á þessu vandamáli. Minnt skal á ábyrgð forstöðumanna og stjórna í þessu sambandi skv. 49. gr. fyrrnefndra laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.`` Og svo í framhaldi af því, með leyfi forseta: ,,Það er að sjálfsögðu Alþingis að ákveða hvort stofnanir skuli veita meiri og dýrari þjónustu en núverandi fjárheimildir þeirra gera ráð fyrir.``

Herra forseti. Bara þetta atriði er nægjanlegt til að stoppa umræðuna og taka umræðu um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar upp á nýjan veg og það liggi alveg fyrir að starfsskýrslurnar frá 1998 séu til umræðu. Ég segi alveg eins og er að það er með hreinum ólíkindum að þetta skuli gerast ár eftir ár í hinni virðulegu stofnun, Alþingi, að hér er bent á það af hálfu Ríkisendurskoðunar að farið sé fram úr fjárheimildum í stofnunum og menn hafa ekki farið að settum reglum og það er látið viðgangast án nokkurra athugasemda. Í minnsta lagi, herra forseti, skora ég á hv. forsætisnefnd Alþingis að taka þessi mál til skoðunar og það komi ekki fyrir ár eftir ár sama setningin frá Ríkisendurskoðun um að ekki sé farið að fjárheimildum.

Herra forseti. Ég get haldið áfram með hinar 153 skýrslurnar sem eru frá 1998. En þar sem enginn hæstv. ráðherra telur ástæðu til að vera viðstaddur þá mun ég hverfa frá við svo búið. En ég bendi sérstaklega á að umræðan um skýrslurnar sem eru með mjög margar þarfar ábendingar þarf að vera á allt annan máta. Það þarf að vísa þessum skýrslum til nefnda, jafnvel viðkomandi nefnda þingsins þar sem þær heyra til og það þarf að gefa út nefndarálit til að eftirfylgni geti orðið á réttan máta. Þetta er það sem ég var að vona að framsögumaður starfsskýrslunnar mundi ræða að það þyrfti að breyta eins og áður hefur komið fram um vinnulag varðandi starfsskýrslur og skýrslur Ríkisendurskoðunar.

Síðan má velta fyrir sér ýmsum öðrum hlutum, herra forseti, þ.e. þegar bornar eru fram fyrirspurnir um ýmis atriði sem varða stofnanir sem heyra undir Alþingi og ráðuneytin og svör dragast á langinn og það tekur kannski allt að tvö ár að fá niðurstöður um það sem spurt er. Það er með ólíkindum að það skuli hægt að velkja málum aftur á bak og áfram í kerfinu. Jafnvel þótt búið sé að setja menn frá störfum í ákveðnum stofnunum er ekki hægt að fá nein handföst gögn um hvað hafi verið að gerast. Ástæða er til að draga þær ályktanir að misfarið hafi verið með fé í einstökum stofnunum og það hefur verið sett til skoðunar. Það er náttúrlega undarlegt að það skuli hvergi sjást, ekki enn þá a.m.k., í starfsskýrslum eða endurskoðunum frá Ríkisendurskoðun í ýmsum skýrslum sem voru gefnar út en ég vona að það standi til bóta. Ég ætla ekki að tíunda, nákvæmlega hvað ég á við. Það á ekki við nákvæmlega núna en þegar ríkisreikningur vegna 1999 verður lagður fram mun ég spyrja mjög ákveðið um atriði sem varðar Lánasýslu ríkisins. Ég mun spyrja mjög fast og ákveðið um hvernig mál hafa skipast þar þannig að mönnum má vera ljóst að það mál verður dregið upp þegar ríkisreikningur fyrir 1999 verður til umræðu.