Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 11:18:46 (1839)

2000-11-16 11:18:46# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[11:18]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi skýrsla, frv. til lokafjárlaga fyrir 1998, gefur tilefni til annarrar og langrar umræðu. Í nóvember, 16. nóvember nánar til tekið árið 2000, er verið að dreifa frv. til lokafjárlaga. Einhver er nú skilvirknin í kerfinu. Að sjálfsögðu gefst tækifæri, herra forseti, til að ræða við virðulegan forseta Alþingis þetta frv. til lokafjárlaga og við hæstv. fjmrh. Það voru bara ekki nákvæmlega fjármálin sem ég var að ræða. Ég var að ræða um þær athugasemdir sem eru gerðar við starfsemi hinna ýmsu stofnana sem felast í 163 skýrslum, 154 opinberum skýrslum. Það er það sem ég var að tala um, herra forseti, og eftir svona margar ítrekanir vona ég að það skiljist hvað ég er að tala um. Það þurfi ekki að stafa það nákvæmar fram en ég hef gert.

Ég lýsi furðu minni á því að menn skuli draga fram starfsemi frá árinu 1998 seint á árinu 2000. En kannski má segja að betra sé seint en aldrei.