Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 11:20:28 (1840)

2000-11-16 11:20:28# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[11:20]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta er afar athyglisverð og þörf umræða. Vinnubrögð okkar og afgreiðslur á dagskrá þessa fundar, í upphafi vinnudags, er annars vegar starfsskýsla Ríkisendurskoðunar 1999, sem er í raun og veru starfsskýrsla 1999 um málefni sem áttu sér stað 1998, og skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999. Þær verða ræddar hér á eftir og ég ætla ekki að fara í umræðu um þær.

Herra forseti. Annars vegar erum við að skoða tvær stórar skýrslur, 1998 og 1999, með yfirliti um öll mál sem umboðsmaður Alþingis hefur tekið fyrir og hvernig með þau var farið. Auðvitað er alveg ljóst, herra forseti, að við munum ekki ræða ítarlega hvert mál jafnmikilvæg og þau eru í þessum tveimur ársskýrslum 1998 og 1999. Við eigum að láta okkur þetta að kenningu verða og ákveða að við tökum hverja skýrslu fyrir á hverju ári en ekki að einhverjum tveimur árum liðnum vegna þess að spurningin sem við eigum að svara hér og nú er sú hvort ástæða er til þess fyrir Alþingi að taka fyrir skýrslur þeirra stóru og þýðingarmiklu embætta sem heyra undir það eins og umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar. Ef svarið er já eigum við að hafa skoðun á því hvernig þeim skýrslum er skilað til Alþingis og hvernig umræðan skuli vera um þær skýrslur. Báðar skýrslurnar eru annmörkum háðar. Í öðru tilvikinu eru tvær gífurlega miklar bækur sem er ekki nokkur leið fyrir þingmenn að lesa eitthvað ærlega frá því fyrir helgi að þær voru lagðar fram. Hitt er stutt starfsskýrsla sem er í raun og veru yfirlit þess eðlis að það er spurning hvort hægt sé að taka hana til efnislegrar umræðu eða hvort skýrslan á fyrst og fremst að vera kynning á verkefnum Ríkisendurskoðunar til upplýsingar fyrir þingmenn. Ef svo er, þá er auðvitað allt annað uppi en það sem ég er að vekja máls á og sem hv. þm. Gísli S. Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar á Vesturlandi, vakti til umræðu fyrir nokkrum mínútum.

Þetta er vönduð framsetning á því sem fram er sett í þessari stuttu skýrslu, það fer ekkert milli mála. En það eru ekki vönduð vinnubrögð að ræða starfsskýrslu fyrir árið 1999 sem fjallar um málefni sem voru til umræðu 1998. Eins og fram hefur komið er þessi umræða að fara fram núna í nóvember. Næsta haust, haustið 2001, munum við ræða málin frá 1999 sem verða þá orðin hundgömul og 2002 munum við ræða þetta ár. Þetta er fullkomlega óviðunandi. Þess vegna verðum við að ræða það í bróðerni, af því að þetta er mál okkar allra, hvernig við viljum vinna með stofnanirnar sem heyra undir Alþingi því að flestar stofnanir heyra undir framkvæmdarvaldið.

Þá vil ég nefna þriðju skýrsluna um mikilvægt embætti sem er embætti umboðsmanns barna. Það embætti heyrir undir forsrh., ekki undir Alþingi. Það er e.t.v. brotalöm miðað við þá hugsun sem er um umboðsmennina. En umboðsmanni barna er ætlað að gefa forsrh. árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári, prenta og birta fyrir 1. september ár hvert. Þar eru aðrar kröfur en við gerum um vinnulag. Auðvitað ættum við líka með einhverjum hætti að koma skýrslu umboðsmanns barna til umræðu á Alþingi vegna þess að umfjöllun um hana fer eingöngu fram í fjölmiðlum með ófullnægjandi hætti, m.a. um málefni sem eru tekin til umræðu hér.

Herra forseti. Ég geri þetta að umræðuefni vegna þess að ef við ætlum að hafa þetta svona áfram verðum við að finna annað vinnulag varðandi úttektirnar sem Ríkisendurskoðun gerir og gerir ágætlega. Því hef ég reynslu af.

Á bls. 4 í skýrslunni er talað um að sjálfstæði Ríkisendurskoðunar gagnvart stjórnsýslunni sé mikilvægt til að tryggja trúverðugleika og árangur í störfum stofnunarinnar. Eigi að síður er þýðingarmikið að samvinna sé náin við stjórnsýsluna. Við höfum rifist um hversu náin sú samvinna eigi að að vera og hversu formlega Ríkisendurskoðun eigi að koma að verkum stjórnsýslunnar til að trúverðugleikinn verði ekki á reiki. Um þetta höfum við rætt. Síðan er getið á sömu síðu um skýrslu sem efh.- og viðskn. Alþingis lét frá sér fara um úttekt Ríkisendurskoðunar og varðar innheimtusvið tollstjórans í Reykjavík. Tekið er fram að það sé í fyrsta sinn sem nefnd Alþingis afgreiðir þannig skýrslu stofnunarinnar. Ef fleiri nefndir eiga að afgreiða þannig skýrslur verða þær að fá skýrslurnar til sín. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. 5. þm. Vesturl., þingmanns Samfylkingarinnar, að við verðum að draga nefndirnar inn í þessa vinnu. Máli mínu til stuðnings, herra forseti, ætla ég að leyfa mér að fara yfir skýrslu sem Samfylkingin fékk Ríkisendurskoðun til að vinna á þessu vori og var skilað í maí á sama tíma og starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar er dreift til þingmanna. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að sú skýrsla sem ég er með í höndunum á ekki heima í þessari umræðu árið 2000 um málefni sem Ríkisendurskoðun var að vinna árið 1998. En þetta er þýðingarmikil og afar brýn skýrsla hvað varðar þingmennina og starfsemi okkar. Hún varðar samanburð á rekstrarkostnaði Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem var lögð af af hálfu framkvæmdarvaldsins, og Íbúðalánasjóðs sem var komið á laggirnar af hálfu framkvæmdarvaldsins og hæstv. félmrh. Skýrslan er að því leyti mjög merkileg að niðurstaða hennar styður það sem við höfum sagt allan tímann frá því þessar lagabreytingar, sem eru að mínu mati ógæfulegar, áttu sér stað. Skýrsla Ríkisendurskoðunar staðfestir að árlegur rekstrarkostnaður Íbúðalánasjóðs er hærri en árlegur meðalkostnaður Húsnæðisstofnunar sem nemur 85 millj. kr. Borinn var saman meðalkostnaður Húsnæðisstofnunar fyrir fimm ár, 1994--1998, við kostnaðinn 1999 hjá Íbúðalánasjóði þannig að þetta voru fagleg og góð vinnubrögð, herra forseti. Síðan var áætlaður kostnaður sjóðsins miðað við umsvif fyrir árin 2000--2003. Þar sem það er nú ljóst og allur þingheimur veit að hæstv. félmrh., sem ég nefni hér þó að hann sé fjarverandi af því að hann kýs eins og aðrir ráðherrar að vera fjarverandi, hefur sagt það aftur og aftur að sparnaður eigi að vera af þeirri breytingu að leggja niður Húsnæðisstofnun og stofna Íbúðalánasjóð þá reyndist það alrangt. Munurinn nemur 80--100 millj. kr. Í greinargerð með frv. til fjárlaga --- og ég bið þingmenn að leggja við eyrun --- er fullyrt að sparnaður af niðurlagningu Húsnæðisstofnunar með stofnun Íbúðalánasjóðs muni að fullu skila sér þegar á árinu 2000 en það brýtur í bága við þá skýrslu sem Samfylkingin hefur fengið frá Ríkisendurskoðun og ég er með í höndum.

Ég vil líka geta þess af því að ég er að fara inn á þessi mál að launakostnaður sjö stjórnarmanna húsnæðismálastjórnar er langtum lægri en launakostnaður fimm stjórnarmanna Íbúðalánasjóðs. Hækkun er 60% bara á stjórnarkostnaðinum hvað Íbúðalánasjóður er hærri en húsnæðismálastjórnin gamla og launakostnaður níu æðstu yfirmanna Húsnæðisstofnunar árið 1998 var 46 millj. kr. en launakostnaður tíu æðstu yfirmanna Íbúðalánasjóðs árið 1999 var 56 millj. kr. Það munar 10% eða 5,6 millj. Þetta eru skelfilegar niðurstöður fyrir okkur sem lögðumst gegn þeim breytingum sem gerðar voru. Auðvitað gerði ég ráð fyrir því að þar sem þetta kæmi fram í athugun Ríkisendurskoðunar kæmi þessi mikilvæga könnun fram í skýrslum þegar þær yrðu ræddar á Alþingi. Ég hef að sjálfsögðu ekkert að gera með það, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, að ræða þessa niðurstöðu frá því í maí haustið 2002. Þá er hún úrelt gömul upplýsing og hefur engan tilgang að taka hana til umræðu.

Herra forseti. Hins vegar mun ég fela þingmönnum Samfylkingar í félmn. að óska eftir því að skýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir Samfylkinguna verði tekin þar til umfjöllunar og skoðunar og niðurstaða gefin út. Það eru svipuð vinnubrögð og höfð voru af hálfu efh.- og viðskn. varðandi skýrslu eða úttekt Ríkisendurskoðunar á innheimtusviði tollstjórans í Reykjavík. Við hljótum að verða enn þá uppteknari af því að fá að vita hvernig breyting, sem hv. Alþingi gerði á jafnmikilvægri stofnun og Húsnæðisstofnun ríkisins með sparnað og aðhald að leiðarljósi, skuli hafa orðið með þessum hætti að ég tali ekki um annan fáránleika, þ.e. hvernig var farið í að leggja niður félagsleg lán og afleiðingar þessa alls á fasteignamarkaðinn og heimilin í landinu því að hækkað fasteignamat hafði áhrif á barnbætur, vaxtabætur og afkomu heimilanna. Auðvitað þarf að ræða þetta og undir hvaða lið, herra forseti?

Ég hef kynnt hvernig ég legg til að farið verði með þessa skýrslu, enda varð hún til vorið 2000. En ég hef líka hugsað um það sem stendur í skýrslunni, að mjög mikilvægt sé að Alþingi sýni framkvæmdarvaldinu aðhald. Ríkisendurskoðun er stofnunin okkar. Ríkisendurskoðun er stofnunin sem á að hjálpa okkur að vera með þetta aðhald. Ég held að Ríkisendurskoðun sé gott tæki til þess. Þá verðum við að tryggja að þetta tæki og að niðurstöður þessa tækis skili sér inn í þingið þannig að niðurstöðurnar verði til þess að við breytum vinnubrögðum okkar ef þess þarf og að við breytum lögum ef þau hafa reynst svo gersamlega vitlaus að þau hafa bæði orðið dýrari fyrir þá stofnun sem um ræðir og jafnframt erfiðari fyrir fólkið í landinu. Þannig eigum við að vinna, herra forseti. Þannig eigum við að nota tækið Ríkisendurskoðun. Það er ekki gagnlegt fyrir mig sem hef með mér skýrsluna að kvöldi dags eftir langan vinnudag og ætla mér að fara yfir þann boðskap sem er í henni til að geta rætt faglega á þessum morgni að sjá það stutta ágrip sem gefið er af vinnu Ríkisendurskoðunar. Það segir mér að Ríkisendurskoðun er að vinna gott starf en það er ekki nægilegt fyrir mig til að fara í umræðuna. Annaðhvort verða þetta að vera númeruð skjöl sem eru fylgirit við skýrslu Ríkisendurskoðunar þannig að þingmenn geti farið í einstök mál eins og er væntanlega búist við að þeir geri í skýrslu umboðsmanns Alþingis eða þá að við verðum að taka hverja einustu skýrslu, koma henni til nefnda Alþingis, láta fjalla um hana þar og fá nefndarálit um það og ræða í hv. Alþingi. Við skulum því gera þetta, virðulegi forseti. Ég treysti því að hæstv. forseti Alþingis taki undir ábendingar mínar og sé jafnmikið áfram um góð og vönduð vinnubrögð og fara betur í hlutina en við höfum hingað til gert þannig að hann tryggi þau vinnubrögð sem hér hafa verið lögð til.