Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 11:39:17 (1843)

2000-11-16 11:39:17# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[11:39]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki á því að hvaða leyti ég var með skæting. Hv. þm. gerði að umræðuefni húsnæðismál almennt og gerði það að umræðuefni hvort það hefði verið til góðs eða ills að leggja niður Húsnæðisstofnun og stofna Íbúðalánasjóð. Það var gert þegar til umræðu var starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar sem ég flyt í þinginu. Kannski má hugsa sér að hv. þm. hafi verið að tala yfir höfuðið á þeim manni sem var framsögumaður fyrir skýrslunni en ég tók það svo að hv. þm. væri að hefja umræðu um hvort ástæða væri sérstaklega til þess að ræða húsnæðismálin á Alþingi og flytja um það skýrslu. Ég tók undir að vissulega gefa húsnæðismálin tilefni til að athuga hvernig þau hafa þróast, ekki aðeins á síðasta áratug heldur kannski tvo eða þrjá síðustu áratugi, m.a. vegna þess að þetta tímabil í sögu okkar Íslendinga er mjög lærdómsríkt og það er mjög nálægt í tíma. Við getum rifjað það upp á árunum milli 1970--1980 hvernig verðbólgan lék einstaka sjóði. Við getum velt því fyrir okkur ef við hugsum um áratuginn milli 1980--1990 hvernig lögin um verðtryggingu léku lántakendur og við getum kannski rifjað það upp að í lok 7. áratugarins var samþykkt og ákveðið að húsnæðislán skyldu að hluta til vera verðtryggð sem síðan var fallið frá og lögunum breytt á þinginu milli 1971--1972. Ég álít að ýmislegt í þessari þróun sé lærdómsríkt og ég tek því ekki þegjandi ef því er haldið fram að með því að ég er þvert á móti að taka undir það sem hv. þm. segir, að ástæða sé til þess að ræða húsnæðismálin, þá sé sagt að ég sé með skæting.