Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 11:43:45 (1845)

2000-11-16 11:43:45# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[11:43]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst við vera komin lítið eitt út fyrir efnið en hér er til umræðu starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar og mér finnst ekki ástæða til að hlaupa svona út um víðan völl en freistast þó til þess því að í upphafi máls síns talaði hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, og þá var klukkan um það bil hálftólf, um upphaf starfsdags. Það vill þannig til að ég sit m.a. í fjárln. Alþingis og við hefjum störf um áttaleytið hvern einasta morgun. Hjá mér er þetta a.m.k. ekki upphaf starfsdags. (Gripið fram í.) Oft og tíðum er verið að gagnrýna störf þingsins og þá megum við passa okkur að tala ekki með þessum hætti.

Á sama hátt finnst mér ekki ástæða til að ráðast á forseta Alþingis því að honum hefur tekist afar vel til við að gæta hlutleysis í störfum. Auk þess sitja í forsn. fulltrúar allra flokka og við eigum að kappkosta að gæta hlutleysis í störfum og það held ég að við gerum.

[11:45]

Herra forseti. Ég kom fyrst og fremst upp til að þakka ríkisendurskoðanda, Sigurði Þórðarsyni, og starfsfólki hans fyrir vel unnin störf á síðasta ári. Við þurfum ekki að deila um það úr ræðustól Alþingis að Ríkisendurskoðun heyrir að sjálfsögðu undir Alþingi. Þess vegna er mjög eðlilegt að forseti þingsins kynni starfskýrsluna eins og hann hefur gert svo ágætlega í morgun.

Eins og fram hefur komið í máli mínu sit ég í fjárln. Alþingis og núna á þessu kjörtímabili einnig í forsætisnefnd. Ég hef því getað fylgst ágætlega með starfi Ríkisendurskoðunar og ég tel að stofnunin hafi þróast í takt við hinn síbreytilega nútíma og Ríkisendurskoðun beitir mjög nútímalegum vinnubrögðum í úrvinnslu. Það sjáum við á þeim 163 skýrslum sem þeir vinna, þ.e. 154 eru reyndar opinberar en aðrar eru það ekki. Ég tek líka eftir því að Ríkisendurskoðun hefur verið að láta sig umhverfismál varða sem skiptir miklu máli. Gefin hefur verið út skýrsla um umhverfismál á árinu 1991 undir heitinu Umhverfisstefna í ríkisrekstri. Þar er því m.a. fylgt eftir á hvern hátt lögum og reglum er snerta umhverfismál er framfylgt, hvernig staðið er við alþjóðlegar skuldbindingar um samninga á sviði umhverfismála og hvernig framkvæmdaaðilar standa við eigin stefnumörkun á sviði umhverfismála. Ég gleðst mjög yfir því og eins og ég segi er ég fyrst og fremst kominn til þess að lýsa ánægju minni yfir störfum Ríkisendurskoðunar. Ég tel að þeir vinni starf sitt vel og ég endurtek að hér er fyrst og fremst um að ræða þessa skýrslu en ekki eitthvað annað.