Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 12:03:02 (1847)

2000-11-16 12:03:02# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[12:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og áður í skýrslum Ríkisendurskoðunar er fyrirferðarmest í þessari skýrslu fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun stofnunarinnar sem er afar þýðingarmikið og mikilvægt starf til þess að halda uppi aðhaldi og eftirliti í stjórnsýslunni og leggja mat á skilvirkni og hagkvæmni í ríkisrekstri.

Eins og fram kemur í skýrslunni er Ríkisendurskoðun að færa sig inn á nýjar brautir eins og þær sem tengjast umhverfismálum og er það vel.

Ég verð að segja, herra forseti, að það sem mér finnst vanta í starfi þingsins þegar við fjöllum um skýrslu Ríkisendurskoðunar og sem mér fannst vanta í máli hæstv. forseta þegar hann fylgdi skýrslunni úr hlaði, er hvernig við ætlum að standa að málum til þess að hafa möguleika á að fylgja skýrslum Ríkisendurskoðunar eftir. Mér finnst það vanta í störfum þingsins og mér finnst að hæstv. forseti hljóti að eiga að hafa forustu um það þegar við ræðum skýrsluna að segja okkur frá því hvernig hann sér fyrir sér að við getum bætt aðstöðu okkar til að fylgja þessum skýrslum eftir. Inn á þær brautir var t.d. farið af hálfu efh.- og viðskn., eins og hér kom fram á síðasta þingi, með góðum árangri. Ég á sæti í efh.- og viðskn. og tók þátt í því starfi sem ég tel að hafi verið afar mikilvægt, gagnlegt og fróðlegt og sé mikilvæg viðbót við það verk sem Ríkisendurskoðun vinnur. Þar gerði nefndin tillögur um úrbætur í mörgum liðum sem hún beindi til fjmrh. sem auðvitað styrkir það mikilvæga verk sem Ríkisendurskoðun er að vinna.

Það er tvennt sem mér finnst vanta og ég vil beina til hæstv. forseta. Við höfum aftur og aftur verið að fjalla um skýrslur Ríkisendurskoðunar. Það stendur upp úr flestum sem hér tala að nefndir þingsins, sem eru allmargar og misjafnlega mikilvægar, eigi að fjalla um skýrsluna en það er eins og þessu sé ekkert fylgt eftir meira. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að einstakar nefndir geta að eigin frumkvæði tekið upp þessar skýrslur, fjallað um þær og sent skýrslur til þingsins með sama hætti og efh.- og viðskn. gerði. En það verður að setja þessar skýrslur í fastan farveg og finna þeim fastan stað í þingsköpum. Það var reynt í þeim drögum sem lágu fyrir um breytingar á þingsköpum, að mig minnir, sem var svo ekkert meira gert með, þannig að ég spyr hæstv. forseta: Megum við eiga von á að hann leggi fram, og þingflokkarnir fjalli þá um, breytingar á þingsköpum þar sem tekið verður á þessu máli? Það eru auðvitað ýmsir aðrir þættir í þingsköpum og störfum þingsins sem þarf að taka á en þetta er einn mjög mikilvægur.

Menn hafa nefnt hér ýmist að ein nefnd ætti að fjalla um þessar sérstöku skýrslur Ríkisendurskoðunar og sérstaklega þegar verið er að fjalla um stjórnsýsluendurskoðunarhluta þeirra eða þá að viðkomandi þingnefndir sem viðkomandi skýrsla fjallar um eigi þá að fjalla um málið. Um þetta eru eitthvað deildar meiningar, væntanlega, en umfram allt þarf að setja þetta í fast form og um það spyr ég hæstv. forseta. Það þarf auðvitað líka að gefa tíma til þess í störfum þingsins, og það má vera að hægt sé að skipuleggja starf þingnefnda með þeim hætti á sumrin þegar meiri tími gefst til, að fara þá skipulega yfir þær skýrslur sem lagðar eru fram frá Ríkisendurskoðun.

Einnig finnst mér vanta hvernig á að fylgja því eftir að framkvæmdarvaldið fari að þeim ábendingum sem fram koma hjá Ríkisendurskoðun og þá eftir atvikum frá þingnefndum sem fjalla um skýrslurnar. Ég t.d. veit ekki og hef ekki tilfinningu fyrir því hvað einstök ráðuneyti eða stofnanir fara eftir þeim ábendingum og tillögum sem koma fram hjá Ríkisendurskoðun. Ég tek eftir því í síðustu skýrslu Ríkisendurskoðunar og ríkisreiknings að þar er kafli um eftirfylgni þar sem getið er hvernig ákveðnum málefnum hefur verið fylgt eftir eins og það sem varðaði málefni fatlaðra að mig minnir, og síðan ábendingar sem vörðuðu tollstjóraembættið. Við þurfum að fá yfirlit yfir það, ekki síður en að fá hér ársskýrslu stofnunarinnar til umræðu, þá þurfum við að fá yfirlit og skýrslu um það hvernig ráðuneytin fara að þeim tilmælum og ábendingum sem fram koma hjá Ríkisendurskoðun. Slík málsmeðferð mundi veita framkvæmdarvaldinu miklu meira aðhald en gert er núna. Ég mundi því gjarnan vilja sjá það sem fastan lið í störfum þingsins og störfum Ríkisendurskoðunar að Ríkisendurskoðun legði fram slíka skýrslu um það hvernig ráðuneytin framfylgdu tilmælum og ábendingum hennar.

Ég geri ráð fyrir að allvel sé staðið að því af hálfu ráðuneyta og stofnana, ég er ekkert að draga það í efa, sjálfsagt er það misjafnt. En engu að síður finnst mér að setja þurfi það í fastar skorður.

Ég vil líka undirstrika að þrátt fyrir mikilvægi í starfsemi Ríkisendurskoðunar verður það aldrei nógsamlega undirstrikað að þingmenn eru, með því að Ríkisendurskoðun hefur þarna ákveðið mikilvægt eftirlitshlutverk með höndum, ekki að framselja vald sitt til þess að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu eins og þingmenn eiga að gera. En mér finnst einmitt bera á því í málflutningi ýmissa ráðherra í ýmsum svörum þeirra til þingsins að þeir telji að þingmennirnir sjálfir hafi í raun og sanni ekkert eftirlitshlutverk. Það kom síðast fram á dögunum í ummælum hæstv. viðskrh. þegar hér var lögð fram skýrslubeiðni af hálfu nokkurra þingmanna, að þá kom hæstv. ráðherra upp í ræðustólinn áður en gengið hafði verið til atkvæða um þá skýrslu og sagði bara fyrir fram að umbeðin svör við því sem um var beðið í þeirri skýrslu mundu ekki koma fram, þannig að ég vil halda því til haga í umræðunni þegar við erum að ræða um það mikilvæga verkefni sem Ríkisendurskoðun hefur með höndum að því er varðar eftirlit.

Ég vil líka taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, sem mér fannst einna athyglisverðast í þeirri umræðu sem farið hefur fram í dag, og er angi af því sem við höfum mátt búa við á umliðnum árum, það er það sem fram kemur í endurskoðun ríkisreiknings 1999 varðandi E-hluta stofnanir en þar kemur fram orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ríkisendurskoðun er á hinn bóginn ekki heimilt að birta efnisleg atriði úr slíkum skýrslum í endurskoðunarskýrslu sinni um ríkisreikning viðkomandi árs þar sem hlutafélög eru einkaréttarlegir aðilar þó svo þau séu í meirihlutaeign ríkissjóðs.``

Hér er bara verið að segja eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nefndi að þinginu komi ekkert við hvað þarna fer fram á vegum ríkisstofnana sem eru í meirihlutaeign ríkissjóðs og velta, eins og hv. þm. nefndi, eru með í eigið fé um 70 milljarða kr. Ráðherrarnir hafa verið duglegir að bera fyrir sig í svörum sínum skýrslu sem hæstv. forsrh. lagði fram í þinginu sem hann fékk lögfræðing til að vinna um hlutafélagalöggjöfina og aðgang þingmanna að upplýsingum úr stjórnkerfinu þar sem ráðherrar bera upplýsingalög og hlutafélagalög fyrir sig til að koma í veg fyrir að Alþingi fái upplýsingar með eðlilegum hætti sem nauðsynlegar eru til þess að þeir geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Það er og verður alltaf sífellt meira áhyggjuefni í þingsölunum hve verið er að draga úr og minnka aðbúnað þingsins og þingmanna til að geta sinnt þeim mikilvæga þætti í störfum sínum sem er eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Ekki vantar, herra forseti, að hér hafi verið lögð fram þingmál til að auðvelda þingmönnum þetta mikilvæga starf, eins og t.d. frv. til laga sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hafði forustu um, þar sem einmitt er tekið á þessum málum varðandi t.d. E-hluta ríkisreiknings og að þingmönnum sé tryggður í þingsköpum sá réttur sem fram kemur í stjórnarskránni, sá stjórnarskrárvarði réttur að þeir geti aflað upplýsinga um opinber málefni sem varða hag almennings. Til þess þarf að breyta þingsköpum og á þann hátt sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur lagt til. Ég vil minna á í því sambandi að undir þetta er raunverulega tekið í nýlegri skýrslu nefndar sem hæstv. forsrh. lagði fyrir þingið, sem unnin var undir forustu Páls Hreinssonar, sem fjallaði um starfsskilyrði stjórnvalda. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Æskilegt er að tekið verið til athugunar hvort ástæða þykir til að setja nánari ákvæði í þingskapalög um slíkar fyrirspurnir.`` En þar er áður vitnað í hinn stjórnarskrárvarða rétt þingmanna.

Það er ástæða til að nefna þetta hér vegna þess að við erum að fjalla um eftirlitsþátt í starfi þingsins sem er líka starf þingmanna ekkert síður en er í störfum Ríkisendurskoðunar.

Hér hefur líka þing eftir þing verið flutt breyting á lögum um þingsköp Alþingis þar sem lagt er til að heimila nefndum að eigin frumkvæði að fjalla um og rannsaka önnur mál en þau sem þingið vísar til hennar sem varða framkvæmd laga, meðferð opinberra fjármuna og önnur mikilvæg mál er almenning varðar. En þessi mál fást lítið rædd í þingnefndum. Það er fyllsta ástæða til, herra forseti, að vekja athygli á þessu hér við umræðuna.

Ég held að mjög mikilvægt sé að við ljúkum því ekki þessari umræðu nema að fá fram álit forseta, ef hann mögulega getur látið okkur það í té, hvernig haldið verði á málum í framhaldinu að því er varðar þessar sérstöku skýrslur þannig að þær fái fastan og fastari sess í störfum þingsins en verið hefur hingað til.

Starf efh.- og viðskn. hefur verið nefnt hér að því er varðar skýrslur Ríkisendurskoðunar um tollstjóraembættið sem ég tel að sé til fyrirmyndar og eigi örugglega sinn þátt í því að ráðuneyti fari í að leggja í þá vinnu sem þarf til þess að fara að þeim ábendingum sem fram koma hjá Ríkisendurskoðun og í starfi nefndarinnar. Ég vil nefna aðra skýrslu sem mér finnst mjög mikilvægt að þingmenn taki á sem er skýrsla Ríkisendurskoðunar sem kom fram í sumar um sérfræðiþjónustu, þ.e. kaup ríkisstofnana á ráðgjöf og annarri sérfræðiþjónustu. Þar kemur fram, og maður spyr hvort ekki sé nauðsynlegt að þingið fjalli um þær ábendingar sem þar koma fram, að kostnaður ríkisstofnana vegna kaupa á sérfræðiþjónustu hefur hækkað um 85% á tiltölulega stuttu árabili, þ.e. úr 1,1 milljarði kr. árið 1994 í rúma 2 milljarða kr. á árinu 1998. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kom einmitt fram að engar samræmdar verklagsreglur voru til staðar hjá þessum stofnunum og í langflestum tilvikum var ekki um útboð að ræða á sérfræðiþjónustu. Hér eru náttúrlega mjög alvarlegar ábendingar á ferðinni af hálfu Ríkisendurskoðunar sem mjög mikilvægt er að fylgt sé eftir af hálfu þingnefndar. Ég ræddi þetta við formann efh.- og viðskn. og vildi að efh.- og viðskn. tæki þetta mál upp með sama hætti og hún gerði varðandi tollstjóraembættið en það var skoðun formanns efh.- og viðskn. að það væri á verksviði fjárln. að skoða þetta mál ítarlega og vænti ég þess þá að fjárln. taki þetta mál upp með svipuðum hætti og efh.- og viðskn. gerði og skili skýrslu til Alþingis um þetta mál og geri hún það ekki mun ég ítreka það að þetta mál verði tekið upp af hálfu efh.- og viðskn. með sama hætti og sú skýrsla sem hæstv. forseti gat um í máli sínu og hér hefur verið rætt varðandi tollstjóraembættið.

Herra forseti. Meginathugasemdir mínar lúta fyrst og fremst að því að eftirfylgni þeirra skýrslna sem Ríkisendurskoðun vinnur, bæði það að við fáum yfirlit yfir hvernig ráðuneyti og stofnanir framfylgja ábendingum frá Ríkisendurskoðun og hvernig hægt er að styrkja störf Alþingis og festa í sessi umfjöllun nefnda um þessar skýrslur og að þær séu að lokinni slíkri umfjöllun teknar til meðferðar aftur á hv. Alþingi.