Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 12:41:44 (1853)

2000-11-16 12:41:44# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[12:41]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Nú get ég alveg tekið undir með hæstv. forseta að þrátt fyrir hans virðulega embætti getur hann alveg viðrað pólitískar skoðanir sínar út og suður eins og hann vill í ræðustól. En mér finnst það satt að segja orka tvímælis þegar hæstv. forseti er að blanda saman hlutverki sínu sem pólitíkus, fyrrverandi ráðherra og forseti þingsins þegar við erum að ræða akkúrat stöðu þingmanna til að gegna eftirlitsskyldu sinni og eftirlitshlutverki þingmanna, aðbúnaði til þess og stöðu til þess. Mér finnst satt að segja það vera hlutverk forseta að taka upp hanskann fyrir þingmenn í slíkri umræðu en taka ekki upp hanskann fyrir framkvæmdarvaldið eins og mér fannst hæstv. forseti gera í umræðunum hér áðan. Hann á að halda fast á rétt þingmanna. Það finnst mér vera skylda forsetans.

Við höfum lagt fram breytingar á lögum ef hæstv. forseti er að kalla eftir því eins og hefur margoft komið fram í máli hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Það er ekki boðlegt hjá forseta að bera fyrir sig að hlutabréf falli í verði ef þingmenn gegni eftirlitsskyldu sinni með framkvæmdarvaldinu. Við skulum muna það að um stofnanir í eigu ríkisins, eins og Landssímann, þó að hann væri að fullu í eigu ríkisins og líka bankarnir, að þá voru engu að síður ráðherrarnir að bera fyrir sig hlutafélaga- eða upplýsingalög sem er auðvitað ekki boðlegt. Ég vil bara minna á að það kemur fram í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda að raunverulega er bent á að ástæða sé til þess að setja ákvæði um þann rétt sem þingmenn hafa í stjórnarskránni inn í ákvæði þingskapalaga þannig að hægt sé að tryggja eftirlit þingmanna um opinber málefni og hag almennings. Það er einmitt það sem þingmenn Samfylkingarinnar eru að gera og ég hefði frekar kosið að heyra að forseti Alþingis tæki undir það með okkur frekar en að vera að taka upp hanskann fyrir framkvæmdarvaldið.