Einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 13:36:58 (1857)

2000-11-16 13:36:58# 126. lþ. 26.94 fundur 122#B einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[13:36]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Á sunnudagskvöldið kom fram í fréttum Stöðvar 2 og í dagblaðinu Degi í gær það álit Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns að fjárskortur fíkniefnalögreglunnar hafi leitt til þess að menn sitji í gæsluvarðhaldi og einangrun dögum saman án þess að vera yfirheyrðir. Rannsókn mála dragist úr hófi fram vegna þess að yfirvinnukvóti fíkniefnalögreglunnar kláraðist í september. Rannsóknarvinna er því ekki unnin í yfirvinnu þótt fjöldi erfiðra fíkniefnamála sé nú í rannsókn hjá lögreglunni.

Lögfræðingurinn segir að það hafi verið staðfest af starfsmanni hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík þegar beiðni um framlengingu gæsluvarðhalds skjólstæðings hans var tekin fyrir í héraðsdómi í síðustu viku að yfirvinnubann hafi væntanlega haft áhrif á rannsókn mála hjá fíkniefnadeildinni en einstaklingurinn sem um ræðir hafði þá þegar setið þrjár vikur í gæsluvarðhaldi og aðeins verið yfirheyrður einu sinni á öllum þeim tíma og farið var fram á tveggja vikna framlengingu á gæsluvarðhaldsvist hans.

Jafnframt kom fram að lögmaðurinn hafði skrifað lögreglunni bréf þar sem óskað er eftir skýringum á því hvað valdi töfum á rannsókn í máli skjólstæðings hans en engin skýr svör hafa fengist og sumum spurningum hafi beinlínis verið neitað að svara á þeirri forsendu að leynd væri yfir starfsaðferðum lögreglu, rannsóknarhagsmunir krefðust þess. Fyrir leikmann er erfitt að sjá hvernig rannsóknarhagsmunum lögreglumáls er ógnað með því t.d. að svara spurningum verjanda um þann tímafjölda sem farið hefur á síðustu þremur vikum í yfirheyrslur yfir skjólstæðingi hans. Þvert á móti virðist að það sé verið að neita verjandanum um upplýsingar sem engu máli skipta varðandi rannsóknarhagsmuni og ekki leiða til hættu á því að rannsóknargögnum verði spillt en gætu hins vegar orðið til þess að gæsluvarðhaldi yrði hnekkt. Ef svo er, þá er það auðvitað alvarlegasti hluti þessa máls.

Dvöl þessa umrædda einstaklings í gæsluvarðhaldi hefur nú verið framlengd og mun standa yfir í allt að fimm vikur. Það eru því miður mörg dæmi þess í gegnum árin að einstaklingar hafi setið vikum saman í gæsluvarðhaldi og einangrun meðan á rannsókn mála sendur. Ég minni á að einn heilsugæslulækna á Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem sinnir föngum á Litla-Hrauni sá sig knúinn til þess fyrir ári síðan að skrifa yfirvöldum fangelsismála bréf þar sem langri einangrunarvist fanga var harðlega mótmælt. Ólafur Ólafsson fyrrverandi landlæknir hefur einnig ítrekað vakið athygli á því að einangrunarvistun sem nær yfir lengri tíma en þrjár til fjórar vikur gæti valdið verulegu heilsutjóni hjá föngum og þá fyrst og fremst skaðað geðheilsu þeirra. Því miður þekkjum við einnig dæmi þess að saklausir menn hafa beðið varanlegt tjón á heilsu sinni vegna langrar einangrunarvistunar meðan mál þeirra voru rannsökuð.

Þá má minna á skýrslu frá nefnd á vegum Evrópuráðsins sem kom fyrir fáum árum til að skoða fangelsin og aðbúnað fanga þar sem kemur fram gagnrýni á íslenskt réttarkerfi fyrir ofnotkun á gæsluvarðhaldi og einangrun. Það er því með öllu óverjandi ef fjárskortur lögreglunnar hamlar því að mál þeirra sem dvelja í einangrun séu rannsökuð svo fljótt sem auðið er eða að verjendur sakborninga fái ekki eðlilegar og sjálfsagðar upplýsingar sem beðið er um og hugsanlega gætu stytt vistun í einangrun. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hversu margir einstaklingar eru í gæsluvarðhaldi og einangrun í dag og hver er fjöldi þeirra sem hefur verið lengur en þrjár vikur í einangrun?

Hversu margir einstaklingar hafa verið lengur en þrjár vikur samfellt í einangrunarvistun á síðustu þremur árum?

Er rétt að rannsókn mála þeirra sem dvelja í gæsluvarðhaldi og einangrun hafi dregist verulega vegna fjárskorts lögreglunnar og yfirvinnubanns og þar með leitt til lengri einangrunarvistunar en ella hefði orðið?

Er lögreglunni heimilt að neita verjendum einstaklinga sem sitja í gæsluvarðhaldi um upplýsingar er varða starfsaðferðir lögreglu við rannsókn máls viðkomandi einstaklings ef sýnilegt er að upplýsingarnar skaða ekki rannsóknarhagsmuni?

Hefur ráðherra í hyggju að setja reglur er varða hámark þess tíma sem einstaklingur er vistaður í einangrun?