Einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 13:41:15 (1858)

2000-11-16 13:41:15# 126. lþ. 26.94 fundur 122#B einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Þessi utandagskrárumræða um löggæslumál sem hér er beðið um fer fram á sama tíma og lögreglan er að leysa hvert stórmálið á fætur öðru. Engu að síður vill málshefjandi og reyndar fleiri aðilar láta það líta svo út að löggæslan sé öll í kaldakoli og þykir mér illt að sitja undir slíkri síbilju dag eftir dag. Lögreglan hefur þvert á móti aldrei náð jafnmiklum árangri í störfum sínum en á síðustu mánuðum. Hún hefur upplýst stórfelld afbrot og náð að gera upptækt gríðarlegt magn af stórhættulegum fíkniefnum og ég tel ástæðu til þess að þakka lögreglunni sérstaklega fyrir þessi vel unnu störf.

Engu að síður þurfum við ávallt að hafa í huga þá frumskyldu ríkisins að tryggja öryggi borgaranna. Fíkniefnavandinn er áhyggjuefni allra fjölskyldna í landinu og því miður fer Ísland ekki varhluta af þeirri óhugnanlegu þróun sem orðið hefur í nágrannaríkjum okkar og lýsir sér í auknu smygli fíkniefna og mjög alvarlegum afbrotum. Ég tel því fulla ástæðu til þess að lýsa því hér yfir að ég hef þegar lagt fram tillögur til fjmrh. um verulega aukningu fjárframlaga til þessa málaflokks, tillögur sem miða að fjölgun lögreglumanna, fjölgun fíkniefna- og leitarhunda og um sérstakan sjóð til að kosta umfangsmiklar rannsóknir sem ekki rúmast innan venjubundins rekstrar lögreglunnar. Verður unnið að útfærslu þessara tillagna í ríkisstjórninni á næstunni.

Tvennt vekur sérstaka athygli við málflutning hv. málshefjanda. Það er fullyrðingin um fjárskort og svokallað yfirvinnubann lögreglunnar og tengsl þess við ákvörðun dómstóla um gæsluvarðhaldsvist. Vísar hún þar m.a. í viðtal við hæstaréttarlögmann um það efni. Því er til að svara að sá málflutningur hefur nú fallið um sjálfan sig með dómi Hæstaréttar sem staðfesti dóm héraðsdóms um framlengingu gæsluvarðhaldsins. Mat dómstóla í þessu tilviki er að rannsóknarhagsmunir lögreglu vegi þyngra en hagsmunir þess sem í gæsluvarðhaldinu situr. Í tilviki hans er um að ræða mjög stórt fíkniefnamál og það er auðvitað krafa þjóðarinnar að slík mál séu tekin föstum tökum. Þá er það einnig alrangt að í gildi sé yfirvinnubann hjá fíkniefnalögreglunni og mun ég nefna tölur í því sambandi. Ég mun hins vegar ekki ræða um starfsemi fíkniefnalögreglunnar að öðru leyti því að ég hef engan áhuga á því að létta afbrotamönnum iðju sína í þjóðfélaginu og alveg sérstaklega ekki þeim sem vilja græða á því að selja börnunum okkar fíkniefni. Það er af og frá.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri og upplýsa að ég mun fljótlega leggja fram frv. til laga um þyngingu refsinga fyrir fíkniefnabrot.

Svo ég fari yfir þær spurningar sem málshefjandi bar fram í máli sínu, þá spurði hún fyrst hversu margir einstaklingar séu í gæsluvarðhaldi og einangrun í dag og hver sé fjöldi þeirra sem hafa verið lengur en þrjár vikur í einangrun. Svarið er að nú eru 24 í gæsluvarðhaldi og þar af sex í einangrun. Á síðustu þremur árum hefur 241 einstaklingur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, þar af hafa 76 einstaklingar verið í einangrun meira en þrjár vikur samfellt.

Um stöðu verjanda við rannsókn máls eru skýrar reglur í lögum og um störf lögreglu eru ákvæði í lögum um meðferð opinberra mála og í lögreglulögum. Matið á því hvort upplýsingar um starfsaðferðir lögreglu skaði rannsóknarhagsmuni er hjá lögreglunni sjálfri, en ágreiningi um þetta atriði er ávallt hægt að skjóta til dómstóla samkvæmt 75. gr. laganna um meðferð opinberra mála.

Spurt var hvort ráðherra hafi í hyggju að setja reglur er varða hámark þess tíma sem einstaklingur er vistaður í einangrun. Svarið er að hér er um löggjafaratriði að ræða en ekki reglusetningu ráðherra. Þetta atriði mun hins vegar koma til skoðunar hjá réttarfarsnefnd sem nú vinnur að endurskoðun laganna um meðferð opinberra mála, en í nágrannaríkjum okkar tíðkast a.m.k. sums staðar nákvæmari reglur en hér gilda.

Ég ætla þá að snúa mér að spurningunni um hvort rétt sé að rannsóknir og þar af leiðandi gæsluvarðhaldsvist dragist þessa dagana á langinn hjá lögreglunni vegna yfirvinnubanns eins og fullyrt hefur verið. Ég vísa þessu alfarið á bug. Það er fyrir það fyrsta ekkert yfirvinnubann. Það er rétt sem hefur komið fram að rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík er komin verulega fram úr áætlun ársins hvað snertir yfirvinnu en þrátt fyrir það unnu starfsmenn deildarinnar, sem eru alls 12, um 900 tíma á tímabilinu 11. október til 10. nóvember síðastliðinn. Reyndar fór yfirvinnan upp í allt að 3.000 tíma á mánuði í sumar. En ég gaf fyrirmæli um að rannsókn hinna alvarlegu mála verði haldið áfram þótt það kostaði umframkeyrslu á yfirvinnuliðnum.

Herra forseti. Mál er að þessu moldviðri linni. Lögreglan er að störfum og henni hefur verið gert kleift að mæta óvenjulegu vinnuálagi á síðustu missirum. Svo verður áfram.