Einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 13:50:41 (1861)

2000-11-16 13:50:41# 126. lþ. 26.94 fundur 122#B einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Aukinn innflutningur og notkun fíkniefna í íslensku þjóðfélagi er mesti vágestur sem að æsku þessa lands steðjar um þessar mundir. Það er illa hægt að takast á við þann vágest án þess að fíkniefnalögreglan hafi nægilegt fjármagn til sinnar starfsemi. Ég minnist þess að fulltrúar allra stjórnmálaflokka sögðu fyrir síðustu alþingiskosningar að efla yrði sem frekast væri kostur varnir gegn innflutningi og notkun fíkniefna.

Þingmenn Frjálslynda flokksins telja að eigi megi skorta fjárveitingar til vímuefnavarna. Í þeim málum verði að kosta því til í fjárlögum sem tryggi öfluga starfsemi í fíkniefnalögreglunni, sem þegar hefur skilað góðu verki. Þá er nauðsynlegt að endurskoða refsingar- og betrunarúrræði með tilliti til þess að eðli brota hefur breyst með aukinni fíkniefnaneyslu. Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að menn brjóti af sér eingöngu til að fjármagna neyslu með innbrotum, auðgunarbrotum og jafnvel árásum á meðborgara sína. Því er brýnt að bregðast við og tryggja öryggi borgaranna svo sem frekast er kostur.