Einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 14:02:54 (1867)

2000-11-16 14:02:54# 126. lþ. 26.94 fundur 122#B einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Í annað sinn á þessum tveimur dögum finnst mér sjást merki þess að hæstv. ráðherra komi með algjörlega fyrir fram undirbúinn málatilbúnað hér og ég hlýt að fara fram á það að hæstv. ráðherra biðji mig afsökunar á því að hafa það eftir mér hér að ég hafi sagt að löggæslan í landinu sé í kaldakolum. Umræða mín snýst fyrst og fremst um tímalengd varðandi einangrun fanga, ekki um löggæsluna í landinu. Það er lágmark þegar lagðar eru fyrir fram fimm fyrirspurnir til hæstv. ráðherra þar sem hvergi kemur fram sú fullyrðing að löggæslan sé í molum, að ráðherrann svari þeim spurningum og þeim orðum sem til hennar er beint en leggi ekki frummælanda orð í munn.

Hver er hér að slá pólitískar keilur? Skyldi það vera Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður, fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstfl., vegna þess að fullyrðingarnar koma ekki frá okkur? Við erum að beina spurningum til hæstv. ráðherra.

Það er auðvitað gott að fjölgun fíkniefnaleitarhunda standi fyrir dyrum en það breytir ekki þeirri staðreynd að fjöldi manns er í einangrunarvistun hér langt umfram þann tíma sem landlæknir, hópur sérfræðinga á vegum Evrópuráðsins og fleiri og fleiri hafa bent okkur á á undanförnum árum að geti skaðað heilsu viðkomandi einstaklinga. Um það snýst þetta mál. Það er alvarlegur hlutur þegar fram kemur í fjölmiðlum að fjárskortur fíkniefnalögreglunnar, yfirvinnubann sem staðfest er með bókun í héraðsdómi, haft eftir starfsmanni lögreglustjóraembættisins í Reykjavík, sé til staðar þrátt fyrir ykkar orð. (Forseti hringir.) Það er alvarlegt ef hæstv. ráðherra snýr út úr öllu (Forseti hringir.) því sem hér var sagt.