Skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 14:08:31 (1869)

2000-11-16 14:08:31# 126. lþ. 26.4 fundur 118#B skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999# (munnl. skýrsla), ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[14:08]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Skýrslur umboðsmanns Alþingis fyrir árin 1998 og 1999 voru teknar fyrir á fundi allshn. 13. nóvember sl. Nefndin hefur á undanförnum árum fjallað um skýrslu umboðsmanns Alþingis, enda er um að ræða mikilvægan þátt í eftirliti Alþingis með stjórnsýslunni. Nútímaþjóðfélagið krefst þess einnig að þessi þáttur sé skilvirkur því að hann er til þess fallinn að auka réttarvitund fóks og öryggi þess.

Umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, var kjörinn í embætti frá 1. janúar sl. til fjögurra ára en þá hafði hann gegnt starfinu frá 1. nóvember 1998 sem settur umboðsmaður í fjarveru Gauks Jörundssonar eins og hv. þm. Halldór Blöndal gat um áðan. En þann sama dag, þ.e. þann 1. nóvember 1998, var Gaukur kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Óskaði Gaukur eftir leyfi frá störfum frá sama tíma en skipunartími hans í embætti umboðsmanns rann út 31. des. 1999.

Síðustu ár hefur umboðsmaður Alþingis komið til fundar við allshn. til viðræðu við nefndina um skýrslur sínar en að þessu sinni var nefndinni boðið í heimsókn til umboðsmanns og ný húsakynni embættisins í Álftamýri 7 skoðuð. Nefndin hitti starfsfólk hans og fékk kynningu á nýlegri heimasíðu embættisins en þar er að finna upplýsingar um starfsemi umboðsmanns Alþingis ...

(Forseti (ÍGP): Forseti vill biðja hv. þm. að gefa hljóð í salnum.)

... og hægt er að nálgast álit umboðsmanns, gömul og ný, og aðrar afgreiðslur sem umboðsmaður hefur ákveðið að birta. Einnig er á heimasíðunni eyðublað fyrir kvörtun til umboðsmanns ásamt leiðbeiningu um útfyllingu þess.

Herra forseti. Er hv. þm. Lúðvík Bergvinsson á mælendaskrá?

(Forseti (ÍGP): Það skal upplýst að hv. 6. þm. Suðurl., Lúðvík Bergvinsson, er næstur á mælendaskrá.)

Einmitt. Þá held ég að hann geti beðið.

Telur nefndin að þar sé um mikilvæga réttarbót að ræða en markmiðið með heimasíðunni er að auka og bæta aðgengi almennings og þeirra sem starfa í stjórnsýslunni að niðurstöðum umboðsmanns Alþingis um einstök álitaefni og auðvelda þannig borgurunum að gera sér grein fyrir réttarstöðu sinni. Geta þeir svo leitað til umboðsmanns ef þeir telja að brotið hafi verið á þeim af hálfu þeirra sem starfssvið umboðsmanns tekur til.

Á árinu 1998 bárust umboðsmanni Alþingis 288 kvartanir og tók hann tíu mál upp að eigin frumkvæði. Á árinu 1999 bárust 272 kvartanir og fjallaði hann um níu mál að eigin frumkvæði. Mál til meðferðar í lok ársins 1999 voru 146. Kvörtunum til embættisins hefur fækkað og er líklegt að gott efnahagslegt ástand hjá fólki sé meginástæða fækkunarinnar.

Umboðsmaður greindi einnig frá því að hann teldi málatímann hjá embættinu orðinn of langan og hefði embættið verið gagnrýnt fyrir það. Sagði hann að stefnt væri að því að reyna að stytta þann tíma sem tæki að afgreiða mál hjá embættinu í sex mánuði og batt hann vonir við að það tækist á næsta ári.

Umboðsmaður vakti máls á því að það kæmi fyrir að mál væru ekki í réttu formi hjá stjórnvöldum þannig að einfaldra formreglna væri ekki gætt. Sagði hann að e.t.v. þyrfti að huga að því að auka fræðslu á nýjan leik og taldi fullt tilefni til þess að stafsfólk stjórnsýslunnar ætti í meira mæli en nú er að eiga kost á skipulagðri fræðslu og endurmenntun um þær lagareglur sem stjórnsýslan starfar eftir.

Að mínu mati er þetta mikilvægt atriði til að stuðla að skilvirkari og réttlátari stjórnsýslu. Sveitarstjórnarmenn eru t.d. um 900 talsins auk starfsfólks sveitarstjórna, stofnana og ráðuneyta. Því er um stóran hóp að ræða sem þarf að vera meðvitaður um leikreglur stjórnsýslunnar hvort sem um er að ræða málsmeðferðarregluna, andmælaregluna, jafnræðisregluna eða aðrar mikilvægar meginreglur. Eflaust væri með slíkri skipulegri fræðslu meðal starfsfólks stjórnsýslunnar hægt að koma í veg fyrir margan ásteytingarsteininn og því ástæða til að taka undir þessar ábendingar umboðsmanns Alþingis.

Umboðsmaður nefndi einnig að mál sem varða opinbera starfsmenn væru stærsti einstaki málaflokkurinn sem hann fjallaði um á síðasta ári og sagði svo hafa verið frá stofnun embættisins. Sagðist hann hafa orðið var við að það væri algengt að fyrirmælum stjórnsýslulaga væri ekki fylgt við úrlausn þeirra. Hann gerir þetta að umtalsefni í skýrslu sinni og telur ástæðu til að minnast sérstaklega á að við setningu stjórnsýslulaga var út frá því gengið að ákvarðanir um setningu, skipun og ráðningu opinberra starfsmanna, svo og lausn þeirra frá störfum og brottvikningu, skyldu teljast til stjórnvaldsákvarðana sem stjórnsýslulögin giltu um. Telur hann mikilvægt að lagafyrirmælum sem færa valdheimildir til ákvörðunartöku í jafnviðamiklum málaflokki til allra forstöðumanna ríkisstofnana sé fylgt eftir með nauðsynlegri fræðslu um réttarreglur sem gildi um slíkar ákvarðanir.

Ég vil einnig geta þess að innan skamms er að vænta skýrslu frá umboðsmanni Alþingis um stöðu fangelsismála en hún er gerð að frumkvæði umboðsmanns sjálfs. En á árinu 1999 tók umboðsmaður Alþingis upp níu mál að eigin frumkvæði eins og ég gat um áðan.

Herra forseti. Að síðustu vil ég þakka umboðsmanni Alþingis fyrir greinargóðar ársskýrslur sem gefa glögga mynd af þeim fjölbreytilegu og mannlegu viðfangsefnum sem umboðsmaður þarf að takast á við í starfi sínu. Ég vil einnig árétta nauðsyn þess að umboðsmaður Alþingis hafi það svigrúm sem hann þarfnast svo hann geti sinnt áfram því mikilvæga hlutverki að vera réttarúrræði fólksins. Til þess þarf hann fullan stuðning þingsins.