Skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 14:33:04 (1874)

2000-11-16 14:33:04# 126. lþ. 26.4 fundur 118#B skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999# (munnl. skýrsla), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Mig langar til að byrja á að taka undir orð hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar um hvernig í framhaldi af þessu á að vinna svona skýrslu, því sú skýrsla sem hér er til umræðu --- þær eru í rauninni tvær, bæði frá 1998 og 1999 --- er afar merkileg og ég hef haft tækifæri til að hafa hana hér á borðinu hjá mér og er búin að glugga í hana núna í nokkra daga. Ég vil líka láta þess getið hér að allshn. þingsins fór í heimsókn til umboðsmanns Alþingis og átti þar afar fróðlegan fund þar sem farið var yfir þessi mál og ég tel mjög mikilvægt að um slíkt gæti verið að ræða einu sinni á ári, því eðli málanna eru líka að breytast. Við sjáum kannski núna hvernig hlutverk umboðsmanns Alþingis er í rauninni að breytast eða er að breyta starfsháttum stjórnsýslunnar. Það er afar mikilvægt að fylgjast með því líka hvernig þeir breytast.

Það kemur reyndar fram í þessum skýrslum að svo virðist sem stjórnsýslan hafi verið dálítið lengi að taka við sér varðandi þær lagabreytingar sem gerðar hafa verið hér á hv. Alþingi. Það er mikið af skemmtilegum málum sem lúta að því, án þess að ég ætli að fara ofan í einstök mál hér.

Það sem ég tel mikilvægast þar sem þessi stofnun er einn af þeim hornsteinum sem ber að hlúa að, er að hún fái nægilegt fjármagn til þess að standa að sjálfstæðum rannsóknum, sem hún verður auðvitað að gera, þ.e. að sinna þeirri skyldu sinni að sinna öllum þeim beiðnum sem henni berast. Það er afar mikilvægt að hún hafi fjármagn til þess að geta stundað tímabundnar rannsóknir og skoðað málin sjálfstætt og geti þá ráðið til sín fólk, tímabundið, í þannig verkefni.

Jafnframt þætti mér ekki óeðlilegt að gerð yrði breyting og viðbót við 11. gr. laga um umboðsmann. 11. gr. heitir Meinbugir á lögum o.fl. og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ef umboðsmaður verður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum skal hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn.``

Mér finnst það alveg vera umræðunnar virði að skoða hvernig reglugerðir eru settar í samræmi við lög. Auðvitað á það að vera svo að lögin eiga að vera skýr og reglugerðir í samræmi við lög og það er ábyrgð ráðherra að þannig sé hagað til um reglugerðina. Hins vegar sjáum við í þinginu í raun aldrei þessar reglugerðir fyrr en við komumst að því að á þeim eru ákveðin göt og við fáum kvartanir um það. Það er því spurning hvort þetta eigi að skoða á einhvern hátt og ég varpa því fram til umhugsunar hvort þetta sé eitthvað sem ætti þá að vera hjá umboðsmanni. Mér finnst að við eigum að ræða það og skoða.

Núna hefur verið farið fram á viðbótarfjármagn sem mér finnst mjög mikilvægt að fjárlög bregðist við, þar sem umboðsmaður Alþingis er að tala um viðbótarstarfsmann til þess að sinna verkefnum er varða stjórnsýslu sveitarfélaganna. Núna verður það enn mikilvægara. Það eru alltaf að færast aukin verkefni yfir til sveitarfélaganna. Kerfin verða sífellt flóknari. Fólk veit ekki alltaf hvar það stendur. Sum sveitarfélögin hafa, því miður, ekki verið nógu dugleg að vera með gegnsæjar reglur þannig að íbúar þeirra vissu hvar þeir stæðu, hverju þeir ættu rétt á o.s.frv. Ég tel því mikilvægt að þingið standi vörð um það að umboðsmanni sé gert kleift að hafa starfsmann sem gæti farið í slík mál.

Það var líka mjög fróðlegt og var upplýst á þessum fundi með umboðsmanni og starfsmönnum hans, að væntanleg er skýrsla um fangelsismál.

Það sem er alltaf hægt að treysta kannski í öllum skýrslum frá umboðsmanni er að þar eru allar hliðar skoðaðar og þar eru málin sett mjög málefnalega og vel fram.

Það er líka mjög mikilvægt að umboðsmaður standi alveg óháður stjórnsýslunni, að hann standi utan við hana en sé ekki partur af henni eins og kannski gildir fremur um umboðsmann barna sem ég mundi frekar vilja tala um sem opinberan talsmann barna í kerfinu. Umboðsmaður er því ótvírætt sá aðili sem er óháður og sjálfstæður og ekki partur af stjórnsýslunni og það er afar mikilvægt.

Ég vil jafnframt taka undir það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti á og hv. formaður allshn. Þorgerður Gunnarsdóttir tók líka undir og það er að allshn. muni ræða skýrslu Páls Hreinssonar.Við ætluðum að reyna að gera það á síðasta þingvetri og síðasta vor. En það náðist ekki því sú skýrsla er afar merkileg og ekki væri leiðinlegt að fá sjálfan höfund skýrslunnar til viðræðna við hv. allshn. Höfundur skýrslunnar er Páll Hreinsson.

Þessi skýrsla er afar gagnleg og góð og hún á skilið mun meiri umfjöllun, ekki bara í allshn. heldur í mörgum fleiri nefndum, því mörg þessara mála snerta í rauninni allt sem viðkemur nefndum þingsins.