Skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:18:48 (1880)

2000-11-16 15:18:48# 126. lþ. 26.4 fundur 118#B skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því hve afdráttarlaust hæstv. forseti hefur hér tekið af skarið um að búa eigi þannig að umboðsmanni Alþingis að hann geti sinnt öllum þeim umkvörtunum sem honum berast varðandi samskipti við skattyfirvöld og það sé óþarfi, sem forsrh. hefur sett hér fram, að skoða ætti stofnun embættis umboðsmanns skattgreiðenda.

Varðandi stofnun lagaráðs þá kom fram í þeirri skýrslu sem forsrh. lagði fyrir þingið, skýrslu nefndar sem starfaði á hans vegum, að rétt væri að athuga það að stofna slíkt ráð við Stjórnarráðið, eins og það var orðað. Auðvitað kemur tvennt til greina, annaðhvort sé þetta við Stjórnarráðið eða stofnun sem heyrir undir Alþingi. Í þá átt gengur frv. sem flutt er af þingmönnum Samfylkingarinnar undir forustu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur. Ég held að það sé eðlilegra, ef stofna á til embættis eins og lagaráðs, að þá heyri það beint undir löggjafann frekar en undir framkvæmdarvaldið. Það útkljáum við ekki úr þessum ræðustól og vonandi fær það frv. sem Samfylkingin hefur flutt í því efni farsælan framgang.