Skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:25:41 (1884)

2000-11-16 15:25:41# 126. lþ. 26.4 fundur 118#B skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999# (munnl. skýrsla), LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki miklu við þetta að bæta. Hins vegar segir í áliti umboðsmanns í þessu tilviki að þeir sem séu staddir erlendis hafi ekki forgang að tryggingarfélaginu gagnvart þeim sem hafa greitt inn á ferðir og þar af leiðandi tapað því fé. Það er niðurstaða álits umboðsmanns.

Mér fannst koma fram í máli hæstv. forseta Alþingis, sem þá var hæstv. samgrh., að hann hafi gengið í það á sínum tíma að þetta fólk kæmist heim og fyrir það ber að þakka. Hins vegar virðist mér sem af orðum hans megi ráða að eitthvað hafi skort upp á að tryggingarféð dygði til að koma öllu þessu fólki heim og þar hafi ríkissjóður komið inn í og greitt það sem upp á vantaði. Hins vegar segir í áliti umboðsmanns að í tilvikum sem þessum eigi það fólk ekki forgang sem statt er erlendis.

Það kom líka fram í máli hæstv. forseta að á sínum tíma hafi það a.m.k. verið vilji ráðuneytisins að þetta lagaákvæði væri orðað öðruvísi. Hins vegar er það alveg skýrt í lögum í dag og í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis að þeir sem voru erlendis höfðu ekki forgang. Í sjálfu sér er það ekki aðalatriði heldur er kjarni málsins sá að mínu viti að þegar menn hafna áliti umboðsmanns þá þurfi mjög öflugan rökstuðning til þess. Ég benti á að mér finnst rökstuðningurinn ekki öflugur í þessu tilviki.