Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:34:42 (1887)

2000-11-16 15:34:42# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Af því hæstv. landbrh. er hreinskiptinn maður og segir jafnan hug sinn langar mig til þess að spara umræður að spyrja hann einnar spurningar í framhaldi af umræðum sem fóru fram um daginn.

Mundi hæstv. landbrh. leggjast gegn því ef fram kæmi tillaga í þinginu sem mundi beinlínis heimila að settar yrðu upp gæludýrastöðvar utan Hríseyjar, t.d. á höfuðborgarsvæðinu?

Ég spyr, herra forseti, vegna þess að það kom fram í umræðum um daginn að frumkvæði hv. þm. Þorgerðar K. Gunnarsdóttur að u.þ.b. helmingur þeirra sem notfæra sér þjónustu gæludýrastöðvarinnar býr á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það gefur augaleið að þetta fólk vill hafa tækifæri til þess að fylgjast með sínum dýrum, auðvitað samkvæmt þeim reglum sem sóttvarnayfirvöld setja.

Í þeim umræðum sagði hæstv. landbrh. að þingheimur hefði tök á því að breyta þessum lögum vegna þess að inn í þingið væri að koma frv. sem fjallaði um þetta. Hins vegar skiptir nokkru máli að vita um afstöðu hæstv. landbrh. til þessa vegna þess að hann er öflugur ráðherra og menn vita að ef hann leggst af miklum krafti gegn þessu þá er um tómt mál að tala. Ég rifja upp að í hita leiksins talaði hæstv. ráðherra um að maður sem hefði skammbyssu væri ekki svo giska hættulegur fyrr en búið væri að hlaða skammbyssuna. Hann botnaði hins vegar ekki þessa hálfkveðnu vísu og það mátti svo sem draga af henni nokkrar ályktanir. En mig langar í fullri einlægni að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann mundi beita sér gegn samþykkt slíkrar breytingar.