Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:36:30 (1888)

2000-11-16 15:36:30# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er tvennt sem verður að hafa í huga þegar maður er ráðherra. Það er að virða þingið mikils og þjóðina og taka mark á því sem þar gerist og ráðherra ber auðvitað skylda að fylgja eftir þeim ákvörðunum sem þar eru teknar. Ég sagði einnig í þeirri umræðu að fyrir tíu árum hefði verið fórnað hagsmunum eyjarskeggjanna í Hrísey. Þeir mega ekki eiga gæludýr, hvorki hunda né ketti, þeir hafa tekið að sér þetta vandasama verk, sem er fólgið í því að vernda hunda og ketti sem fyrir eru í landinu fyrir sjúkdómum, og þeir hafa gert það vel í Hrísey. Sem betur fer hafa ekki orðið nein mistök á þessari löngu leið frá Keflavík til Hríseyjar og allt saman farið fram af öryggi.

Setur nú hlátur að tveimur hv. þm. sem veldur mér töluverðu ónæði, hæstv. forseti. --- En það er með hláturinn eins og allt annað í lífinu að hann gengur yfir og hann er tákn gleðinnar og þeirrar sælu sem ríkir í sálarlífi þessara hv. þm. sem gleðjast nú yfir umræðunni.

En ég vil segja við hv. þm. að það sem ég hef sem ráðherra mestar áhyggjur af er ef menn færu að skipta þessum verkefnum þar sem þau hafa heppnast svo vel í Hrísey að á fimm árum hafa aðeins verið flutt inn 448 dýr. Segja má að verkefnið sé ekki til skiptanna. Það er ekki stór bisniss í því að taka þetta verkefni að sér. Auðvitað mun ég hlusta á það sem þingið segir í þessum efnum og framkvæma þau lög sem það setur.