Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:42:15 (1891)

2000-11-16 15:42:15# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:42]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hér er hreyft mjög merku máli, húsnæðismálum gæludýra sem flutt hafa verið hingað til lands og eru víðs fjarri heimilum sínum. Það hlýtur að skipta sköpum fyrir velferð þeirra að vel sé búið að þeim.

Það vill svo til að tveir hv. þm. sem hér hafa ræðst við um málið, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hæstv. ráðherra, geta leyst þetta mál sín á milli. Það vill nefnilega svo til að þeir eiga báðir sæti í Þingvallanefnd sem hefur á undanförnum mánuðum verið að vandræðast með gamalt hús á Þingvöllum, Valhöll. Væri ekki tilvalið að þeir tækju sig til, enda báðir mjög tilfinninganæmir í garð gæludýra, og reistu þar félagslegt íbúðarhúsnæði undir þessi gæludýr? Það mætti t.d. tileinka það íslenska fjárhundinum en fyrir nokkrum árum flutti hæstv. landbrh. stórmerkt mál um málefni íslenska fjárhundsins sem hann lýsti sem lifandi listaverki. Svo væri ekki úr vegi að landslið hestamanna tæki formlega á móti gæludýrunum þegar þau koma á Keflavíkurflugvöll og fylgdi þeim með viðhöfn til væntanlegs dvalarstaðar. Ég er alveg sannfærður um að gæludýrin mundu gleðjast mjög yfir slíkum móttökum. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann vildi ekki leysa málið í samvinnu við hv. þm. Össur Skarphéðinsson á vettvangi Þingvallanefndar.