Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:43:59 (1892)

2000-11-16 15:43:59# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú gerast fleiri gamansamir en ég ætlaði úr ræðustól og fara mikinn. Kemur einn ábyrgðarmesti þingmaðurinn hér og hefur í flimtingum alvörumál. Þingvellir eru heilagur staður og við eigum okkur drauma eins og þjóðin um Valhöll og teljum það vandmeðfarið. En við sjáum ekki Valhöll girta af, hvorki fyrir ríkan höfðinga utan úr heimi né stórefnaðan Íslending, hvað þá gæludýrin, þannig að þessari tillögu hv. þm. er hafnað.

Hitt er rétt hjá honum að íslenski fjárhundurinn er einn besti varðhundur heimsins og er í mörgum löndum notaður sem slíkur. Ég flutti merka tillögu um það um árið og ef ég man rétt var ort í þingsalnum:

  • Þú, íslenski fjárhundur, lifandi listaverk,
  • með ljómandi augu sem höfða til réttlætiskenndar,
  • með hringaða rófu og hálsband um loðna kverk.
  • Ég heiti á þig að komast til allsherjarnefndar.