Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:53:48 (1896)

2000-11-16 15:53:48# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða mál sem fengu talsverða umfjöllun bæði í landbn. og raunar á hinu háa Alþingi í almennri umræðu fyrir ári og er um margt endurtekin. Ég fagna því þó sérstaklega að áhugi þingmanna hefur aukist á því mikilvæga máli sem hér um ræðir og fagna sérstaklega nýjum liðsmanni í þessa veru, hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur, því að þetta mál fékk, eins og ég sagði, talsverða umfjöllun þegar lítt óbreytt frv. landbrh. um sama efni var til umfjöllunar á síðasta þingi og landbn., m.a. vegna þeirra álitamála sem hér hafa verið rakin, afgreiddi ekki frá sér. Ýmis álitaefni voru á ferðinni, m.a. þau sem nefnd hafa verið hér til sögu, nefnilega hvort eðlilegt og sjálfsagt sé að eingöngu einn staður sé til staðar í landinu þar sem megi geyma gæludýr þar til öllu er óhætt. Af því að það var nefnt til sögu í þessari umræðu, þá lá það fyrir og liggur fyrir að umsókn hefur legið í ráðuneytinu frá öðrum aðilum á höfuðborgarsvæðinu sem hafa óskað eftir því að fá heimild til reksturs einangrunarstöðvar fyrir gæludýr. Þeir hafa fengið þau svör að lög heimili ekki slíkt og þess vegna voru vonir bundnar við það þegar ráðherra kom á síðasta vetri fram með frv. sitt að þar yrði slakað til. Það gerðist ekki þá, en um það bárust fregnir úr hinu háa ráðuneyti að á hausti komanda, þ.e. um þessar mundir, mundi koma annað og hugsanlega breytt frv. En það hefur ekki gerst. Mér heyrist hins vegar á hæstv. ráðherra að hann sé opinn fyrir því að nefndin geri á þessu breytingar og liðki þarna fyrir.

En það er annað í þessu samhengi sem menn verða auðvitað að skoða líka og það er þetta: Er það óhjákvæmilega þannig að opinberir aðilar og landbrn. í þessu samhengi eigi að bera ábyrgð á rekstri einangrunarstöðvar fyrir gæludýr? Er það endilega sjálfsagt að opinberir aðilar kosti í einu öllu uppbyggingu og styrki starfsemi slíkrar einangrunarstöðvar? Ég er ekkert viss um það. Nú rakti hæstv. ráðherra áðan að þessi markaður væri takmörkunum háður og það er sennilega alveg hárrétt, en hann fer þó sístækkandi. Ég er ekki með það handbært hér en kannski getur hæstv. ráðherra upplýst það í lokaræðu hvaða kostnað einstaklingar hafa af því raunverulega í dag að flytja ketti eða hunda, svo maður noti nærtækt dæmi, til landsins og til geymslu í Hrísey, hvað þetta ferli allt saman kosti. Nú veit ég það ekki, en ég sé það í fjárlögum fyrir komandi ár og fjáraukalögum fyrir yfirstandandi ár að enn þá er verið að verja umtalsverðum fjármunum af skattpeningum almennings til þessarar uppbyggingar fyrir norðan og í fjáraukalögum er óskað eftir 6 millj. kr. aukaframlagi til stækkunar einangrunarstöðvar gæludýra í Hrísey í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í mars. Þar segir einnig í grg. að það þýði að heildarkostnaður við stækkun stöðvarinnar er áætlaður um 18 millj. kr. Á fjárlögum ársins 2000 voru hins vegar veittar 6 millj. til verksins og síðan er bætt við að það sem á vanti verði fjámagnað með þjónustugjöldum. Þau borga engir aðrir en notendur stöðvarinnar væntanlega.

Hins vegar er einnig að finna í fjárlagafrv. fyrir komandi ár ákvæði í 7. gr. heimildum nr. 221 þar sem heimilað er að selja íbúðarhús að Austurvegi 8, Hrísey í Eyjafjarðarsýslu, og verja andvirðinu til uppbyggingar einangrunarstöðvar gæludýra í Hrísey. Það er með öðrum orðum eitthvert viðbótarfé sem á að koma líka á næsta ári. Ég finn því ekki stað í tölulegu formi í fjárlagafrv., en væntanlega getur ráðherra upplýst um hvernig heildarmyndin lítur út. Er verið að tala um sömu fjármunina í fjárlagafrv. í heimildarákvæðum og er að finna í fjáraukalögum? Það getur tæplegast verið nema þessi heimild hér --- og nú hef ég ekki flett því upp heldur --- sé gömul, þ.e. sé einnig til staðar í heimildum yfirstandandi árs í fjárlagafrv.

Þetta bar eilítið á góma í umræðu um fjáraukalögin. Ég held ég fari rétt með að hv. þm. Einar Már Sigurðarson hafi vakið máls á þessu og spurt hæstv. fjmrh. út úr um þetta atriði því að þetta er dálítið ruglingslegt. En hann hafði ekki svör á reiðum höndum og vísaði því á hæstv. landbrh. Því ber vel í veiði að hann er hér til staðar, þó í óskyldu tilefni sé, en umræðan hefur náttúrlega hneigst mjög í þessar áttir þannig að ég held að okkur væri hollt líka að hafa hina fjárhagslegu hlið málsins dálítið nærhendis, bæði bein útgjöld hins opinbera vegna þeirrar uppbyggingar sem hefur átt sér stað þarna nyrðra og einnig það sem í farvatninu er.

[16:00]

Þannig er, og hæstv. ráðherra gat þess í framsöguræðu sinni, að nokkur breyting varð á fyrirkomulagi þessara mála ekki fyrir löngu, í þá veruna að einstaklingar sjá nú um reksturinn samkvæmt þjónustusamningi þó að gildandi lög heimili það tæpast. Þetta frv. er í raun eingöngu til að skjóta stoðum undir það fyrirkomulag sem þegar er til staðar, þannig að við höldum því algjörlega kláru og til haga.

Ég velti þessu upp hér af því að ég hef heyrt í áhugaaðilum um þessi mál, af því að áhuga dýralækna bar á góma, hæfra og góðra karla og kvenna sem hafa áhuga á að sinna þessari þjónustu. Ég hef ekki heyrt að þetta fólk sækist sérstaklega eftir peningum skattborgaranna til þeirrar uppbyggingar heldur miði við að þeir sem þjónustuna sækja standi skil á rekstrarkostnaðinum. Þar væri auðvitað grundvallarbreyting á ferð.

Nú vil ég undirstrika að ég veit mætavel að Hríseyingum hefur ýmislegt verið mótdrægt á síðari tímum. Á þeim málum verður með einhverju móti að taka. Það er hins vegar óhjákvæmilegt annað en að horfast í augu við þann veruleika að þeir sem kaupa þessa þjónustu eru af þessu landshorni. Þó ég sé talsmaður flutnings á starfsemi út á landsbyggðina þar sem það á við þá gengur það auðvitað ekki í þeim tilfellum sem almenningur á suðvesturhorninu sækir þjónustuna fyrst og síðast. Það á því miður við í þessu tilfelli. Ég segi því miður, gagnvart þeirri ágætu þjónustu sem nú er veitt norður í landi.

Ég vil ekki undir nokkrum kringumstæðum búa til úr þessu hefðbundna deilu milli þéttbýlis og dreifbýlis. Þetta mál er ekki þannig vaxið. Ég vil hins vegar láta þess getið að mér þætti vænt um að ráðherra færi yfir fjárhagslegar hliðar málsins, hafi hann tiltæk gögn til að svara spurningum mínum. Einnig ber að hafa í huga að þegar kostnaður er kominn úr böndum og innflytjendum gæludýra finnst hann meiri en eðlilegt getur talist þá ýtir það klárlega undir smygl og ólöglegan innflutning. Þannig er það bara.

Hæstv. ráðherra lagði í ræðu sinni mikla áherslu á mikilvægi þess að öllum reglum væri til haga haldið og vel yrði staðið að verki. Menn mega hins vegar ekki vanmeta þann þáttinn, nefnilega hinn ólöglega innflutning sem sagan kennir okkur að verður æ meiri eftir því sem kostnaðurinn, umstangið og fyrirhöfnin við löglegan innflutning er meiri. Það gefur augaleið að einstaklingur á suðvesturhorninu horfir auðvitað í það að senda hundinn sinn, köttinn sinn eða hvað það nú er norður yfir heiðar með þeim tilkostnaði sem því fylgir, sjá ekki hundinn sinn eða köttinn sinn svo vikum skiptir og eiga þess vart kost að líta við hjá honum. Það eykur á þá freistingu að fara ólöglegu leiðina, stinga dýrinu í handfarangur og lauma því inn í landið.

Þetta vildi ég segja um málið. Ég ætla ekki að orðlengja þetta en heiti hæstv. ráðherra og öðrum þingmönnum því að ég og félagar mínir í landbn. munum fara vandlega yfir þetta mál og gæta heildarhagsmuna.