Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 16:29:59 (1903)

2000-11-16 16:29:59# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[16:29]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason var án efa mikill búhöldur þegar hann stýrði hinum ágæta búnaðarskóla að Hólum í Hjaltadal.

Herra forseti. Ég veit vel að hv. þm. Jón Bjarnason er mikið á móti einkarekstri og ég geri engar athugasemdir við það. Mín vegna má hann vera þeirrar skoðunar. En er ekki fulllangt gengið þegar hann heldur því fram að einhver sérstök hætta sé fólgin í því að flytja starfsemi eins og þá sem er t.d. rekin í Hrísey yfir til einkaaðila? Ég spyr hv. þm. að því. Er ekki hægt með jafngóðum hætti að fylgja fram því eftirliti sem þarf að hafa við af opinberri hálfu? Að sjálfsögðu. Ég held meira að segja að hægt væri að gera það með ríkari og sterkari hætti en núna.

Hvað vill svo hv. þm. gera við gæludýrastöðina og sóttvarnastöðina í Hrísey sem núna er uppi? Hún er rekin af einkaaðilum. Það er einfaldlega staðreynd að hún er rekin af einkaaðilum. Vill þá hv. þm., sem er búinn að lýsa því yfir að sú stöð hafi tekist bærilega í framkvæmd, leggja hana niður af hreinum hugmyndafræðilegum ástæðum, þ.e. vegna þess að hún er rekin af manni sem tilheyrir ekki starfsmannahaldi ríkisins?

Í annan stað, herra forseti, langar mig líka til þess að inna hv. þm. eftir afstöðu hans til meginefnis frv., meginbreytingarinnar sem felst í því að menn eru núna að leggja til með frv. að búgreinarnar sjálfar geti flutt inn erfðaefni samkvæmt þeim lögum sett verða og verða að sjálfsögðu að hlíta því eftirliti sem hið opinbera mun framkvæma. Er hann á móti þessu eða er hann með því? Sú afstaða kom ekki fram. Eina afstaðan sem kom fram hjá hv. þm. var að menn skyldu hafa varann á. Það eiga menn að gera. Ég er sammála honum þar af sögulegum ástæðum. En síðan lagðist hann gegn því að menn rækju sóttvarnastöð fyrir gæludýr einfaldlega vegna þess að þær yrðu í einkaeigu.