Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 16:36:03 (1906)

2000-11-16 16:36:03# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[16:36]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo með vísindin og ég tek undir það með hv. þm. að með auknum vísindum, aukinni tækniþekkingu komumst við alltaf nær og nær því að gera hlutina sem við þekkjum hverju sinni betur og betur og það er vel. Hins vegar væri það alger hroki að ætla að halda því fram varðandi það sem lýtur einmitt að rannsóknum á lífi og þróun þess að við getum hér á þessum punkti staðhæft að við vitum núna 100% allt og að við getum gefið 100% öryggi fyrir öllu sem við erum að segja um lífið.

Sem betur fer er lífríkið það flókið að þó við aukum þekkingu okkar á því stöðugt og færumst alltaf stöðugt nær og nær, þá megum við ekki falla í þá sjálfsblekkingu að við séum búnir að komast þar að öllu. Og það gildir um sóttvarnir, smitvarnir og hvað eina.

Ég ítreka, herra forseti, að við þurfum að sýna auðmýkt og bera virðingu fyrir lífinu --- við munum vonandi aldrei vita 100% allt um það. Þess vegna getum við ekki gengið fram með þeim hætti. En ég styð það eindregið að við eflum og beitum nýjustu tækni og þeirri bestu þekkingu sem við höfum til þess að tryggja öryggi innflutnings á dýrum.