Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 16:37:52 (1907)

2000-11-16 16:37:52# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[16:37]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. flestum málefnalega umræðu um þetta mál. Ég vil þá fara nokkrum orðum um þau atriði sem hér var komið inn á.

Síðastur talaði hv. þm. Jón Bjarnason. Ég verð að segja eins og er að ég varð dálítið undrandi á ræðu hans, eiginlega verulega undrandi, því að ég veit að hv. þm. veit betur. Annaðhvort var það viljandi eða óviljandi gert að láta liggja að ýmsum hlutum í pólitískum tilgangi og reyna á milli setninganna að segja ósatt. Það sem mér var kennt í bernsku og hafa verið grundvallaratriði mín í lífinu er að segja satt, vera heiðarlegur og hreinskilinn. Það er alltaf vont þegar menn láta liggja að því, eins og kom fram í máli hv. þm., að hér sé verið að gera vonda hluti, fara fram og aftur í ræðustólnum um málið og reyna að segja að ráðherrann sé að slaka á öllum hlutum og verið sé að stíga mjög hættulegt skref o.s.frv.

Stundum spyr ég mig að því hvort þingmenn séu læsir. Sagt hefur verið að eitt mesta vandamál hjá þingmönnum um víða veröld sé að með aldrinum verði þeir ólæsir. Nú hefur hv. þm. setið stutt á þingi og ætla ég að svo sé ekki. Ég hygg að hann hafi fulla lestrargetu og geti þess vegna lesið þetta mál og kynnt sér það eins og það stendur.

Í fyrsta lagi fjallaði hv. þm. um sjúkdóma. Hann lét að því liggja að öll lönd væru mjög illa sett í því. Sem betur fer standa mörg lönd vel að sínum málefnum. Ég hafði það á tilfinningunni að það sé hagur einhverra í þessari umræðu, vegna þess að leyfður hefur verið í tilraunaskyni innflutningur fósturvísa úr kúm frá Noregi, að láta liggja að því að Noregur sé eins og Evrópa. Hv. þm. og flokksfélagi hans hafa í umræðunni og fyrr í vikunni minnst á og spurt eftir Creutzfeldt-Jakobs sjúkdómnum sem upp kom í Noregi og tengdur var kúariðunni. Ég hef þegar skýrt frá því að upplýsingar hafa komið frá Noregi um að Norðmaðurinn dó úr því afbrigði sem ekki snýr að kúariðu. Og það liggur fyrir að kúariða hefur ekki komið upp í Noregi og það liggur fyrir að Íslendingar eiga auðveldara með að eiga samskipti við Noreg en flest önnur lönd að því leyti að þar hefur skýrsluhald verið með þeim hætti í áratugi og aðhald í sjúkdómum að það ætti að vera okkur og mörgum öðrum til eftirbreytni. Ég vil að það komi skýrt fram að þessi sjúkdómur hefur ekki komið upp í Noregi.

Ég tek undir það með hv. þm. að mikilvægt er, og þar erum við samherjar og sammála og ég hygg að þingheimur allur sé það og reyndar þjóðin, að alls öryggis sé gætt hvað innflutning varðar út af sérstöðu okkar. Hér hélt hv. þm. því blákalt fram að verið væri að slaka á framkvæmdinni og verið væri að slaka á eftirlitinu. Það á ekki að slaka á einu einasta atriði. Hins vegar sjá það allir að ríkið á ekki að þurfa að standa í því í hverju einasta tilfelli að gefa leyfi fyrir innflutningi hvort sem það er erfðaefni, lifandi dýr eða sæði, þá er ekki verið að slaka á einu einasta atriði í þessu heldur er verið að aðskilja. Það er eðlilegt að búgreinarnar sjálfar og þeir sem vilja flytja inn geri það sjálfir en eftirlitið sé alveg klárt á hendi ríkisins og þyngri skyldur þess vegna lagðar á herðar yfirdýralæknis í þeim efnum. Það er ekki ætlunin að slaka á þessu heldur herða ef eitthvað er og meiri ábyrgð sé fólgin í því að þetta sé á sitt hvorri hendinni.

Ég er ekkert frá því nema foringi hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi gert ýmsar breytingar þá tíð í þeirri fornöld sem hann var landbrh. því að tíminn líður hratt og það er orðið dálítið langt síðan það var. En ég gæti vel trúað því að hann hafi með sínum ágætu störfum tekið ýmsar breytingar sem nú hafa gengið lengi í Hrísey og hér er kannski verið að samræma lögin að því. Því hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var um margt framsýnn landbrh. eins og hann er auðvitað sem stjórnmálamaður. Ég vil því hafa það alveg á hreinu að hv. þm. fer með rangt mál þegar hann heldur því fram að hér sé verið að slaka á. Hann getur lesið frv. og öll þau sóttvarnalög og öll þau öryggisatriði. Hvað innflutninginn varðar þá er verið að koma því á að yfirdýralæknir hafi þriggja dýralækna ráð sér við hlið í öllum þessum málum þannig að hér er mikið öryggi á ferðinni og bið ég hv. þm. um að lesa málið betur.

Hér fór hv. þm. Össur Skarphéðinsson mikinn og hélt prýðilega ræðu og satt að segja hef ég alltaf gaman af því þegar vísindamaðurinn Össur Skarphéðinsson brýst fram og nær yfirhöndinni yfir stjórnmálamanninum. (Gripið fram í: Meira gaman ef ... ) Ja, vissulega eru þeir báðir skemmtilegir. Ég hygg að sú ræða sem hann flutti sé um margt rétt. Hann spurði mig ýmissa spurninga. Hann ræddi um áhugamál sitt að flytja fósturvísa heim til Íslands úr litföróttum hesti. Hann fór réttilega með margt sem vísindamenn hafa sannfært mig um og þá sérstaklega það að fósturvísaflutningur er talinn mjög örugg leið og menn gátu ekki greint mér frá því að það hefði valdið áhættu. Vissulega fór hv. þm. yfir mörg grundvallaratriði sem skipta landbúnaðinn miklu máli. Það er alveg rétt sem hann minntist á að svínakjötið hefur náð mikilli þróun hér, lægra verði og markaðssókn ekki síst vegna þeirra kynbóta sem hafa átt sér stað vegna þess að menn hafa flutt inn.

[16:45]

Hv. þm. minntist einnig á nautakjöt og annað slíkt. Ég hygg að það sem hefur verið flutt inn í þeim efnum var fyrst Galloway-kyn fyrir mörgum árum, líklega fyrir 1970. Síðan hafa menn á seinni árum fengið að flytja inn til þess að nýta íslenska náttúru, til þess að hafa samkeppnisstöðu við svínakjötið, tvö ný kyn sem heita, eins og ég hef nefnt áður, Aberdeen Angus og Limousin --- mér finnst þetta alltaf vera bílategundir. En þetta hefur verið flutt inn og þetta hefur verið að skila þeirri búgrein miklum árangri í samkeppni við aðrar kjöttegundir. Mér er sagt að þessi kyn, þegar gripunum er slátrað, Íslendingnum og þessum, 22 ára gömlum, íslenska kúakynið er ekki holdagripakyn eða kjötkyn, muni það 100 kílóum á gripnum sem skiptir sköpum bæði fyrir markaðinn og afkomu bóndans. Sú staðreynd er því ljós.

Þess vegna var tekin sú ákvörðun sem hv. þm. minntist á, að leyfa mjög takmarkaða tilraun, mjög þrönga tilraun og skýrt afmarkaða, um innflutning á norsku mjólkurkúakyni til tilrauna og fram fer undir ströngustu skilyrðum í tveimur fjósum. Auðvitað hefði orðið erfitt að hafna tilraun þar sem margar aðrar greinar hafa þegar fengið að nýta sér innflutning og kynbætur til búfjárframleiðslunnar í landinu. Ég veit ekki hvort ég á að eyða tíma mínum í það en auðvitað vil ég að það komi fram hvað það varðar að ég bind eigi að síður miklar vonir við það mikla ræktunarátak sem ég hef minnst á með íslensku kúna, 35 milljónir verða settar í það ræktunarátak og framsýnustu vísindamenn og bændur munu koma að því. Ég er ekkert viss um að íslenska kýrin tapi í þeirri samkeppni en það liggur fyrir t.d. að til þess að sanna hvað hún getur hef ég ákveðið að tveir bændur skuli fá fullt frelsi til þess að framleiða eins og þeir geta úr kúnum og rækta hana hratt því að grunur hefur legið um að kvótakerfi og framleiðsluskerðingar hafi haldið íslensku kúnni niðri.

Aðalmarkmið okkar Íslendinga er auðvitað það að í hinum sökkvandi heimi þess sóðaskapar sem ríkir í matvælaframleiðslu um víða veröld eiga Íslendingar möguleika á mikilli sókn. Við eigum sóknartækifæri af því að við eigum einhverja bestu náttúru heimsins, hreina og óspillta. Við getum kropið að hverjum læk og drukkið tært vatnið. Þetta geta ekki margar þjóðir. Þess vegna eigum við möguleika. Sannleikurinn er sá að þegar fólkið er hætt að borða kjöt þar sem kúariðan hefur tröllriðið stöfnum nú um sinn kann vel að vera að íslenskir bændur með öflug búfjárkyn eigi mikla möguleika á að selja afurðir sínar á markaði til þess fólks sem vill einmitt fá vöru úr náttúru eins og við höfum upp á að bjóða.

Ég sá á dögunum og heyrði í útvarpi að Ítalir eru þegar búnir að kveikja á perunni. Einhver ítalskur bóndi ætlar að selja vöru sína í gegnum internetið. Neytandinn getur farið inn á netið, séð aðstæðurnar þar sem gripurinn bítur grasið og við hvaða aðstæður hann lifir og gert síðan viðskiptasamninga. Auðvitað sé ég þetta fyrir mér sem nýja möguleika sem muni styrkja það að fleiri geti notið afurða úr íslenskri náttúru og að bændurnir muni eiga betri afkomu og náð því að verða frjálsir að því leyti að þeim opnist markaðir á ný fyrir gott verð erlendis.

Hv. þm. ræddi mikið um hrossin og ég ætla að koma að því. Sannleikurinn er nú sá að menn hafa tekist á um marga hluti. Ég sagði áðan að ég tek undir það með hv. þm. að fósturvísaflutningur er talinn áhættulaus. Íslenski hesturinn hefur numið land í 80 eða 100 þjóðlöndum, er elskaður þar og dáður. Ég stend frammi fyrir því að kannski er sama deilan að koma upp aftur sem var hér fyrrum. Eitt sinn deildu Íslendingar og íslenskir bændur um það hvort einungis ættu að fara út geltir hestar. Það mátti helst ekki flytja út stóðmerar, alls ekki graðhesta með háu verði, þá héldu menn að þeir töpuðu. Ég gerði mér alltaf grein fyrir því hér áður að hjörtum manna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu. Bóndinn, hvar sem hann býr, hvort sem það er á Íslandi eða úti í Evrópu eða Kanada eða Bandaríkjunum, er sama ræktunarbarnið í hjarta sínu og gerir kröfur um að komast yfir það besta. Það er ekkert gaman að vera bóndi ef maður fær ekki að framrækta kynið sitt til að gera það gott. Þess vegna var það alltaf erfitt hjá Íslendingum að standa gegn því að graðhestar yrðu fluttir út og seldir á háu verði.

Nú þegar Ísland er viðurkennt sem Mekka heimsins hvað íslenska hestinn varðar, það er upprunaland hans, þurfum við kannski að svara fleiri spurningum. Þær spurningar eru auðvitað að koma upp sem hv. þm. minntist á, að íslenskir hestamenn sem hafa mikla afkomu af sínum búum og stóðhestum sínum spyrja: Getum við ekki nýtt okkur markað heimsins þegar íslenski hesturinn hefur numið land í 100 þjóðlöndum og menn vilja eiga viðskipti við okkur? Þá eru þeir farnir að leita á um það að þeir vilja flytja út sæði. Sú starfsemi er í þróun í hrossabúskapnum. Það kann vel að vera og ég ætla ekkert að slá hendinni á móti því að einhvern tíma þurfum við Íslendingar kannski að flytja inn fósturvísa til að ná því besta. (Forseti hringir.)

Þá hefur það nú gerst á þessu hugarflugi mínu að ræðunni er allt í einu lokið, hæstv. forseti, og ég hafði ekki svarað nema litlu af því sem ég ætlaði að koma að.