Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 16:59:19 (1912)

2000-11-16 16:59:19# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[16:59]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Eftir þessa skemmtilegu umræðu er einungis ein spurning sem vakir í hugskoti mínu: Ef hæstv. landbrh. telur í lagi að heimila innflutning á fósturvísum úr norskum nautgripum mælir þá eitthvað gegn því að flutt verði inn erfðaefni úr íslenskum stóðhesti þó hann eigi heima í Þýskalandi?

Herra forseti. Í annan stað ætla ég ekki spyrja hæstv. landbrh. beinlínis um eftirfarandi en ég vil samt segja það hér. Ég held að það hljóti að koma til álita hvort það stappi ekki nærri brotum á samkeppnislögum ef ein atvinnugrein fær með þessum hætti styrkja sjálfa sig en öðrum er meinað hins sama. Ég vil einungis vekja máls á þessu því þetta er eitt af því sem menn hljóta að skoða í framtíðinni og hæstv. landbrh. ætti auðvitað, af því hann getur nú verið hraður ef hann kastar af sér ham snigilsins, að kanna á undan öðrum.