Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:03:12 (1915)

2000-11-16 17:03:12# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:03]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Erfðafræðin er flókið fyrirbæri og ég ætla ekki að fjölyrða um hana. En ég vil segja hér hvað þetta varðar að menn verða í hverju tilfelli að fara yfir málið. Ég geri mér grein fyrir því að íslenski hesturinn er ein mesta auðlegð sem við eigum. Hann er eftirsóttur. Ég hygg samt sem áður að við séum með þá Mekku í höndunum að við munum frekar vilja fá fullt frelsi til þess að flytja út og sú sókn er hafin hjá mönnum. Menn sjá ekki mikla þörf enn þá til þess að flytja inn hvað það varðar. Það kann að koma upp og þá verða menn að skoða það í hverju tilfelli.