Jarðalög

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:11:55 (1921)

2000-11-16 17:11:55# 126. lþ. 26.6 fundur 73. mál: #A jarðalög# (endurskoðun, ráðstöfun jarða) frv., Flm. SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:11]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Gildandi jarðalög eiga sér rætur allt aftur til fyrstu ára áttunda áratugarins og eru að sjálfsögðu barn síns tíma. Markmið þeirra, þegar þau voru sett fyrir 30 árum eða þar um bil, var að tryggja að allar þær jarðir sem þá voru nýttar til hefðbundins búskapar skyldu nýttar svo áfram. Til þess að reyna að tryggja það og setja skorður við því að jarðirnar yrðu nýttar með einhverjum öðrum markmiðum í huga var m.a. sett á fót mjög þungt og viðamikið kerfi sem minnir einna helst á hvernig menn höguðu sínum málum í austantjaldslöndunum fyrrverandi, með öðrum orðum var ekki bara sveitarstjórnum veitt mjög víðtæk heimild til þess að ráðskast með fasteignir bænda heldur voru settar á stofn sérstakar jarðanefndir og undir þær urðu bændur að sækja allar þær ráðstafanir sem þeir hugðust gera á bújörðum sínum og raunar eignum sínum í tengslum við bújarðir sem ekki vörðuðu að halda áfram hefðbundnum búskap.

Það varð t.d. að fá leyfi jarðanefnda til þess að nýta bújarðir bænda undir annað en hefðbundinn búskap. Til að reisa þar á sumarbústaði eða taka upp ferðaþjónustu þurfti leyfi opinberrar nefndar. Það þurfti líka leyfi opinberrar nefndar, jarðanefndar, ef bóndi hugðist selja bújörð sína einhverjum aðila sem hefði hug á að kaupa. Því miður eru mörg dæmi um að jarðanefndirnar fóru þannig að ráði sínu og notuðu vald sitt þannig að þær komu í veg fyrir að bóndi gæti selt bújörð sína á hagstæðasta verði til aðila sem var reiðubúinn að kaupa og settu bændum sem áttu í erfiðleikum jafnvel þann stól fyrir dyrnar að ef þeir ekki seldu þeim tiltekna aðila sem jarðanefnd þóknaðist þá mundi jarðanefnd ekki samþykkja ráðstöfun þeirra á bújörð sinni til annarra.

Þá var sú kvöð líka sett um ráðstöfunarrétt bænda á bújörðum sínum að bónda var ekki heimilt að láta t.d. son sinn fá arfahlut úr jörðinni eða ábúðarrétt á jörðinni nema með samþykki jarðanefndar þannig að jarðanefnd var úrskurðaraðili um ráðstöfunarrétt bóndans á fasteign sinni sem á sér engin fordæmi annars staðar eða í öðrum atvinnugreinum.

[17:15]

Eins og ég sagði voru þessi lagaákvæði barn síns tíma og draga dám af því að á þeim árum gerðu menn allt það sem þeir gátu til að koma í veg fyrir að bóndi gæti nýtt bújörð sína til annars en hefðbundins búskapar. Hann mátti ekki selja nema það þóknaðist jarðanefnd, hann mátti ekki breyta búskaparháttum sínum nema það þóknaðist jarðanefnd, hann mátti ekki láta erfingja sína njóta bújarða sinna nema með samþykki jarðanefndar o.s.frv.

Ég held að flestum þingmönnum sé kunnugt um dæmi þess að valdi jarðanefnda hafi verið gróflega misbeitt. Meira að segja lék á því vafi að upplýsingaskylda stjórnsýslulaga næði til jarðanefnda, þ.e. þær þurfti ekki einu sinni að gera grein fyrir því hvers vegna þær tækju fram fyrir hendur á eiganda bújarðar og kæmu í veg fyrir það að bóndinn ráðstafaði jörð sinni eins og honum best hentaði. Einnig eru dæmi um að jarðanefnd hafi verið spurð um ástæður slíkrar breytni og hún neitað að gefa nokkur svör. Þannig er kerfið sem komið var á í kringum eignir bænda með hreinum ólíkindum og ég ítreka, einna líkast því sem maður hefur lesið sér til um austantjaldsríkin sálugu.

Þegar breyting var síðast gerð á jarðalögum var þessi ráðstöfunarréttur bænda þrengdur jafnvel enn þá meira. Á þeim tímum héldu menn að aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu mundi fylgja það að fjöldinn allur af útlendingum, sem þóttu vondir menn á Íslandi á þeim tíma, mundu streyma til landsins til þess eins að festa kaup á bújörðum bænda og hrekja bændur frá eigum sínum. Til þess að spyrna við því var enn einn þröskuldurinn settur í veg fyrir bændur sem vildu ráðstafa jarðeignum sínum eins og þeim best hentaði. Það var gert þannig að bónda var ekki heimilt að selja jörð sína til annars en þess sem annaðhvort hefði búið á jörðinni eða í næsta nágrenni hennar í þrjú ár.

Ef menn líta aðeins á þær hömlur sem settar eru á íslenska bændur með þessum lögum annars vegar og hins vegar til þeirrar stefnu ríkisvaldsins að reyna eftir föngum að draga úr hefðbundnum búskap með því að kaupa upp framleiðslurétt bænda, með því að hvetja til bændur nýti jarðir sínar til annars en hefðbundins búskapar o.s.frv. en ríkissjóður ver til þessa miklum fjárhæðum á ári hverju, þá gengur þetta auðvitað ekki upp. Það gengur ekki upp að á sama tíma og menn eru t.d. að kaupa upp framleiðslurétt bænda skuli settir slíkir þröskuldar fyrir að bændurnir geti nýtt bújarðir sínar til annars en hefðbundinna búskaparnytja. Það sem ríkisvaldið aðhefst með annarri hendinni er það að reyna að koma í veg fyrir með hinni.

Herra forseti. Nú eru um það bil fimm ár síðan ég lagði fyrst fram frv. til laga um breytingu á jarðalögum hér á Alþingi. Þar lagði ég til þá breytingu að mjög yrði dregið úr þessu valdi jarðanefnda og bændum gert frjálsara að ráðstafa eignum sínum eins og þeir best kjósa sjálfir. Það segir sig sjálft að allar þær hindranir sem settar eru í veg fyrir að bændur geti ráðstafað bújörðum sínum hafa það eitt í för með sér að eignirnar eru verðminni en ella væri og eiga bændur nú við næga erfiðleika að etja þó að ríkið komi ekki í veg fyrir að þeir geti haft út úr eignum sínum það sem þeir mögulega geta, hvort sem þeir heldur kjósa að nýta þær sjálfir til annars atvinnureksturs en hefðbundins búskapar eða kjósa að selja þær öðrum. Víst er að nóg hefur gengið á hjá bændum þessa lands sem eru ein fátækasta atvinnustéttin í landinu þó að ríkið sé ekki með þessum hætti að gera eignir þeirra verðlitlar eða jafnvel verðlausar með því að setja slíkar hindranir í götu þeirra.

Eins og ég sagði þá eru um það bil fimm ár síðan ég lagði fram frv. til laga um breytingu á jarðalögum þar sem lagt var til að mjög yrði dregið úr valdi jarðanefndanna. Engu að síður var gert ráð fyrir því að þær störfuðu áfram að tilteknum verkefnum. Þá var mér tjáð af þáv. landbrh., þeim landbrh. sem sat þegar ég flutti málið fyrst, að málið væri til skoðunar í ráðuneytinu og nefnd ynni að endurskoðun þessara laga. Ég minnist þess sérstaklega að hæstv. núv. landbrh. Guðni Ágústsson sem þá var óbreyttur þingmaður tók mjög undir málflutning minn í þessu máli. Frv. var sent til landbn. og fór þar til umsagnar, hlaut nokkrar jákvæðar umsagnir m.a. frá bændum úr Strandasýslu eða samtökum þeirra ef ég man rétt, en það varð ekki að lögum.

Ég flutti síðan málið aftur fyrir um það bil tveimur árum og minnti þá hæstv. landbrh. á að hann hefði tekið jákvætt í málflutning minn tveimur árum áður. Hann ítrekaði það og sagði jafnframt að hann ætti von á að fá innan skamms tillögur nefndar sem væri að fjalla um endurskoðun á jarðalögum. Síðan hafa liðið tvö ár. Mér er kunnugt um að hæstv. ráðherra hefur ekki enn fengið í hendur þessar tillögur en ég dreg þó ekki í efa að hann hafi áhuga á að gera breytingar á lögunum.

Eftir að hafa hugsað málið aftur hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé ástæðulaust að hafa þann hátt á að skipa jarðanefndir í sveitarfélögunum og fela þeim sérstök völd í hendur. Ég tel að eigendur bújarða eigi að njóta sama frelsis til nýtingar á fasteignum sínum, jarðnæði og öðrum fasteignum og aðrir aðilar njóta í atvinnurekstri sem eiga atvinnutæki, lönd eða önnur slík verðmæti. Ég er þannig að færast nær þeim hugsunarhætti að það þurfi ekki önnur lög í þessu efni en lög um fasteignaviðskipti, þ.e. það eigi ekki að setja neinar aðrar hömlur á ráðstöfunarrétt bænda yfir fasteignum sínum, hvort sem þeir vilja nýta þær sjálfir með breyttum hætti eða selja þær öðrum, en settar eru eigendum annarra fasteigna. Þess vegna hef ég ásamt fjórum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar lagt til, í frv. til laga um breytingu á jarðalögum sem er 73. mál þingsins á þskj. 73, að sú leið verði einfaldlega valin að sett verði inn ný lokamálsgrein laga nr. 65 frá 31. maí 1976, þ.e. jarðalaga, að lögin falli úr gildi 1. janúar árið 2002. Við leggjum með öðrum orðum til að sett verði inn í lögin sólarlagsákvæði. Þá munu þessi lög falla úr gildi.

Í 2. gr. frv. er síðan lagt til að fyrir þennan tíma, áður en lögin falla úr gildi, skuli hæstv. landbrh. ljúka við að endurskoða ákvæði jarðalaganna og leggja frv. að nýjum jarðalögum fyrir þingið sem þá hefst. Það er tekið fram hvert skuli vera markmið þeirrar endurskoðunar, þ.e. að tryggja eigendum bújarða sambærileg réttindi til ráðstöfunar á jörðum sínum og fasteignum, sem á þeim kunna að vera, og gilda almennt um ráðstöfunarrétt einstaklinga og lögaðila á fasteignum, þar á meðal rétt til að nýta þær eins og þeir sjálfir kjósa, selja þær eða leigja, ráðstafa þeim til erfingja eða nýta til annars en hefðbundinna búskaparnota, enda gangi það ekki gegn ákvæðum annarra laga, svo sem skipulagslaga og laga um náttúruvernd. Tekið er fram að eigi þurfi að afla leyfis viðkomandi sveitarstjórnar né annarra opinberra aðila um slíka ráðstöfun á bújörðum eða fasteignum á þeim né til annarra nytja en hefðbundinna búskaparnota, enda séu ákvæði skipulagslaga og náttúruverndarlaga virt. Hins vegar lagt til að viðkomandi sveitarstjórn verði gefinn forkaupsréttur sem sveitarstjórn geti nýtt ef hún telur að ætluð ráðstöfun á bújörðinni gangi gegn hagsmunum íbúa sveitarfélagsins. Það séu raunar einu afskiptin sem opinberir aðilar geti haft af þessum viðskiptum, að sveitarstjórn geti nýtt sér forkaupsrétt ef hún telur að tilætluð ráðstöfun á jarðeigninni, bújörðinni eða fasteignum á henni stríði gegn hagsmunum sveitarfélagsins og íbúum þess.

Herra forseti. Þetta er í sjálfu sér mjög einfalt mál. Málið snýst um að innleiða sama frjálsræði í ráðstöfun bænda á eignum sínum eins og gildir um ráðstöfun annarra Íslendinga á sínu eignum. Ég er sannfærður um að ef þessum hömlum yrði aflétt þá mundi verðmæti bújarða og fasteigna á þeim stórvaxa og gera bændum auðveldara en nú er að ráðstafa þessum eignum, annaðhvort í breyttum rekstri eða til að selja þær hæstbjóðanda þannig að bændur gætu notið eðlilegrar ávöxtunar af lífsstarfi sínu.

Ég trúi því ekki, virðulegi forseti, að það sé ekki almenn skoðun á Alþingi Íslendinga að þessi fornaldarlög, sem miðuð eru við allt aðra atvinnuhætti og allt annan hugsunarhátt en nú viðgengst, verði afnumin. Ég vil trúa því að unnt sé að gera slíka breytingu á því þingi sem nú situr.

Að þessu loknu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. landbn.