Jarðalög

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:28:49 (1923)

2000-11-16 17:28:49# 126. lþ. 26.6 fundur 73. mál: #A jarðalög# (endurskoðun, ráðstöfun jarða) frv., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:28]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur mér ekkert á óvart að hæstv. landbrh. skuli styðja málflutning minn því að það hefur hann gert áður. Hæstv. ráðherra sagði að því miður hefði hann ekki enn fengið í hendur álitsgerð eða tillögur þeirrar nefndar sem við ræddum um að hann ætti von á fyrir tæpum tveimur árum. Það hefur ekkert gerst á þessu einu og hálfa ári. Ég trúi því að það sé ekki sök hæstv. landbrh. því að eins og hefur komið fram í máli hans hefur hann áhuga á að breytingarnar nái fram að ganga.

Ég hef síður en svo á móti því, ef það yrði niðurstaðan, að ekki einu sinni forkaupsréttarákvæðin yrðu áfram í lögum. Ég tel miklu mikilvægara og hættulegra að hafa áfram í lögum þó ekki væri nema einhvern hluta af því mikla valdi sem jarðanefndirnar hafa. Út af fyrir sig má segja að vegna forkaupsréttar sveitarfélaga þá neyðist sveitarfélagið til, ef það vill nýta hann, að ganga inn í hæsta tilboð. Það kann að vera erfitt fyrir þann sem gerði boðið en þá er ekki verið að hafa fé af bóndanum því að hann fær þá það verð fyrir eign sína sem hann best getur fengið á frjálsum markaði.

Hitt er miklu alvarlegra þegar jarðanefnd hefur vald til að neita bónda um að ráðstafa jörð sinni eða fasteignum sínum eins og hann vill og getur jafnvel skyldað hann eða neytt til að selja eignir sínar til aðila sem hann vill ekki selja, á miklu lægra verði en hann hefði getað fengið fyrir eign sína. Ef menn vilja opna alfarið ráðstöfunarrétt bónda á eigum sínum með því að fella niður bæði ákvæði um jarðalögin og forkaupsrétt sveitarfélaga þá er ég reiðubúinn til þess. En ég tel meira máli skipta að fella niður þessi miklu völd jarðanefndanna en forkaupsréttinn.