Tilnefning Eyjabakka sem votlendissvæðis á skrá Ramsar-samningsins

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 18:18:39 (1932)

2000-11-16 18:18:39# 126. lþ. 26.8 fundur 9. mál: #A tilnefning Eyjabakka sem votlendissvæðis á skrá Ramsar-samningsins# þál., KF
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[18:18]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Ég er einn þriggja flutningsmanna að þáltill. um að því verði beint til ríkisstjórnarinnar að votlendi norðaustan við Vatnajökul, Eyjabakkar, verði útnefnd Ramsar-svæði.

Ramsar-samþykktin svokallaða er kennd við bæinn Ramsar, sem er í Íran, nálægt Kaspíahafi og tók samþykktin gildi 2. febrúar 1971. Á Íslandi tók hún gildi 2. apríl 1978 en þá var Eysteinn Jónsson formaður Náttúruverndarráðs. Á þeim tíma var gengið frá megninu af þeim friðlýsingum sem átt hafa sér stað á votlendi á Íslandi í samræmi við samninginn.

Vitað er að stór hluti mýrlendis á Íslandi hefur verið þurrkaður upp á síðustu árum og er jafnvel talið að um helmingur votlendis í byggð hafi verið skertur. Grafnir hafa verið um 33.000 km af skurðum í landinu enda var það keppikefli frumkvöðlanna að ræsa fram mýrar og rækta landið. Árum saman fengu bændur greitt fyrir að grafa skurði, jafnvel þótt landið yrði ekki að túni, en óverulega hefur verið mokað ofan í skurði til mótvægis og til að endurheimta votlendi í byggð. Gengið hefur verið út frá því að til þess að bæta fyrir uppþurrkun á óröskuðu votlendi í byggð þurfi landsvæði, líka í byggð, sem er tvisvar til þrisvar sinnum stærra að flatarmáli en það sem fórnað var.

Gróðurlendi hefur verið eytt á Íslandi eins og allir vita og talið er að skógur hafi þakið 25% af landinu en þekur nú einungis 1%. Mikil vakning hefur verið hér á landi hvað skógrækt varðar og nú er komið að því að votlendi landsins fái að njóta sannmælis og gildi þess metið að verðleikum.

Alþingi Íslendinga þarf að sýna að mark sé tekið á votlendisrannsóknum hér á landi og annars staðar í heiminum. Rannsóknir sýna að í votlendi er að finna gróðurleifar og þar með er það einnig mikilvæg uppspretta af fræi sem nýtist við bættar aðstæður, t.d. minni beit. Votlendi er því verðmætur arfur sem býr í náttúrunni.

Íslendingar hafa uppfyllt mjög lítinn hluta af Ramsar-samningnum. Hver er votlendispólitík okkar? gæti maður spurt. Heildaryfirlit yfir votlendi á Íslandi þarf samkvæmt samningnum að liggja fyrir innan tveggja ára en þá verður næsta Ramsar-ráðstefna haldin. Á fundi aðildarríkjanna vorið 1999 var samþykkt rammaáætlun með það að markmiði að ríkin fjölgi Ramsar-svæðunum úr 1.000 í 2.000 og að aðildarlönd þurfa að standa sig betur í stykkinu.

Ferillinn er sá að það er umhvrh. sem felur stofnun á borð við Náttúruvernd ríkisins að vinna að málinu. Síðan þarf fulltrúi samtakanna að skoða svæðið og utanrrn. að staðfesta gjörninginn.

Í fyrra voru 25--30 slík svæði tilnefnd í Svíþjóð. Ljóst er af því að frumkvæðið er umhvrh. en utanrrh. kemur einnig að málinu. Þess vegna leggja flutningsmenn til að þáltill. verði vísað til ríkisstjórnarinnar, þar sem báðir þessir ráðherrar sitja. Með samþykkt þessarar þál. sýnir Alþingi vilja sinn í verki.

Ramsar-svæði voru mikið til umræðu á hinu háa Alþingi í fyrra. En fyrir tæpu ári lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. umhvrh. á Alþingi á þskj. 242, mál 208, og var fyrirspurn mín í fjórum liðum. Hún hljóðaði sem hér segir:

1. Hve mörg svæði hérlendis hafa verið útnefnd verndarsvæði samkvæmt Ramsar-samþykktinni um vernd votlendis, sem samþykkt var á Alþingi 5. maí 1977, og hvenær voru þau útnefnd? Hafa borist rökstuddar ábendingar um að fjölga þeim?

2. Hvaða áhrif hefur samþykktin haft á verndun votlendis hér á landi?

3. Hvernig er mikilvægi votlendissvæða metið?

4. Hvaða áhrif mun það hafa á verndun votlendis á Íslandi að síðastliðið vor [þ.e. vorið 1998] var sett fram það markmið að árið 2005 verði Ramsar-svæði orðin tvö þúsund, en þau munu nú vera um eitt þúsund talsins?

Hæstv. umhvrh. svaraði fyrirspurninni á greinargóðan hátt 8. des. 1999 og sagði þá m.a., sem skiljanlegt var í ljósi þess hvernig umræður voru þá í gangi um virkjanir norðan Vatnajökuls, að þegar hefði verið ákveðið að fórna votlendinu á Eyjabökkum, það lægi fyrir.

Á Alþingi var einnig rætt um verndargildi Eyjabakka og aðild Íslands að Ramsar-samningnum í desember í fyrra þegar fjallað var um virkjanir og stóriðju á Austurlandi því á þeim tíma blasti við að stjórnvöld ætluðu sér að virkja Jökulsá á Fljótsdal við Eyjabakka og sökkva þar með Eyjabökkum undir uppistöðulón. Þegar umhvn. þingsins fjallaði um umhverfisþætti þeirrar virkjunar var verndargildi Eyjabakka ofarlega á blaði. Var m.a. vitnað til þess að Landsvirkjun hefði bent á aðrar virkjunarleiðir, svo sem að virkja neðar og þyrma þar með innstu fjórum eða fimm km Eyjabakkavotlendisins.

Í ræðu minni um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun 20. desember í fyrra vakti ég athygli á því votlendi sem til stóð að fórna óafturkræft fyrir tímabundinn, ímyndaðan ávinning, í óþökk stórs hluta þjóðarinnar. Að auki vitnaði ég í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsens, 3. bindi, bls. 74, en þar segir, með leyfi forseta, og er lýsing á Eyjabökkum:

,,Graslendið á eyrunum milli kvíslanna er mjög víðlent og ákaflega loðið, eins og best í byggð, en galli er á gjöf Njarðar: bleyturnar á eyrunum eru svo miklar, að þar kemst víðast enginn yfir, nema fuglinn fljúgandi, alls staðar eru ófær kviksyndi, og menn hafa jafnvel séð hreindýr hverfa í ysjuna, og eru þau þó allvel fær á blautum jarðvegi. Hestarnir okkar höfðu nóg að bíta á útjöðrunum við ystu kvíslarnar, en út á eyrarnar þorðu þeir ekki að fara, enda svignaði jarðvegur fljótt undan þeim, þó þeir stæðu þar sem best var.``

Eins og allir vita og öllum landsmönnum er ljóst skipaðist skjótt veður í lofti á fyrri hluta þessa árs hvað margumræddum virkjanaáformum viðvíkur. Nú er verið að meta umhverfisáhrif virkjunar við Kárahnjúka. Í heimsókn hv. umhvn. til Landsvirkjunar nú í haust kom skýrt fram að núverandi virkjunaráform fela ekki í sér spjöll á Eyjabökkum. Er það vel. Því er einsýnt að hægt sé og skynsamlegt að nota hið gullna tækifæri sem nú hefur gefist. Eyjabakkar uppfylla fullkomlega þau skilyrði sem koma fram í Ramsar-sáttmálanum.

Mér finnst eðlilegt, herra forseti, að þáltill. þessari verði vísað til hæstv. umhvn. Ég vonast til að hún fái þar verðugan framgang og verði loks afgreidd sem ályktun Alþingis.